Fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti í dag umfangsmikið efnahagsfrumvarp sem Donald Trump skírði: Stóra, fagra frumvarpið. Litlu mátti muna en frumvarpið var samþykkt með 218 atkvæðum gegn 214.
Trump mun svo lögfesta frumvarpið með undirritun sinni á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna sem er einmitt á morgun.
Tveir þingmenn Repúblikana greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, Thomas Massie frá Kentucky og Brian Fitzpatrick frá Pennsylvaníu.
Frumvarpið er vægast sagt umdeilt. Auðkýfingurinn Elon Musk hefur ítrekað fullyrt að verði frumvarpið á lögum muni það hneppa bandarísku þjóðina í skuldaánauð til frambúðar. Eins er frumvarpið sagt hampa efnamiklum á kostnað efnaminni. Með frumvarpinu eru framlög til heilbrigðis- og almannaþjónustu skorin niður en framlög til varnamála hækkuð, svo dæmi séu tekin. Eins má þar finna umfangsmikla hækkun á skuldaþaki ríkissjóðs, en það hækkar um fimm þúsund milljarða dollara.
Skorið verður hressilega niður í almennum heilbrigðistryggingum sem kallast Medicaid og er áætlað að á næsta áratuginum muni rúmlega 12 milljónir Bandaríkjamanna vera án heilbrigðistryggingar.