Góðar fréttir berast af meiðslum Alberts Guðmundssonar framherja Fiorentina og íslenska landsliðsins. Frá þessu er sagt í hlaðvarpinu Dr. Football.
Albert meiddist í 5-0 sigri íslenska landsliðsins á Aserbaídsjan á föstudag, hann fékk þungt högg á ökklann þegar hann skoraði í leiknum.
Albert fór af velli vegna þess og missir af landsleik Íslands gegn Frakklandi á morgun í París.
Meiðslin eru hins vegar ekki alvarleg. „Tvær vikur,“ sagði frændi hans, Albert Brynjar Ingason um málið í Dr. Football.
Höfðu þeir frændur rætt málið eftir leik og því ljóst að einn mikilvægasti leikmaður landsliðsins verður ekki lengi frá.