Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá París
Leikmenn íslenska karlalandsliðsins koma fullir sjálfstrausts inn í leikinn við Frakka hér ytra í 2. umferð undankeppni HM á þriðjudagskvöld.
Ísland vann Aserbaísjan 5-0 í fyrstu umferðinn og er því afar létt yfir mönnum. Verkefni þriðjudagsins er þó af allt öðrum toga.
„Við erum að jafna okkur líkamlega eftir föstudaginn. Við erum búnir að fara vel yfir þann leik og erum byrjaðir að fara yfir Frakkana. Þetta verður krefjandi verkefni en við hlökkum mikið til að reyna að stríða þeim aðeins,“ sagði miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason við 433.is í París í dag.
Sem fyrr segir er sjálfstraustið gott eftir leikinn á föstudag.
„Sérstaklega út af því hvernig við unnum. Það er ekkert oft sem ég hef verið í landsliðinu og við unnið 5-0. Það gefur okkur mikið í framhaldinu, sérstaklega í svona riðli þar sem eru bara sex leikir.
Við vitum að þetta verður allt öðruvísi leikur. Við verðum að eiga frábæran leik taktískt til að gefa okkur sem mesta möguleika. Við getum búist við því að þeir verði meira með boltann. Við þurfum að vera sterkir í skyndisóknum og föstum leikatriðum en reyna að halda í það sem við höfum verið að gera með boltann.“
Ítarlegra viðtal er í spilaranum.