Henry Birgir Gunnarsson settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut alla föstudaga. Þar var einnig Hörður Snævar Jónsson, fréttastjóri íþróttafrétta á Torgi.
Guðmundur Eggert Óskarsson féll frá í febrúar í fyrra. Hann er stuðningsmaður ársins 2022.
Hann var mikill stuðningsmaður Breiðabliks og arfleiddi knattspyrnudeild félagsins 200 milljónum króna sem eiga að skiptast jafnt á milli starfsins í karla- og kvennaflokki.
„Þetta eru engir smá peningar. Vel gert að nurla þessu saman,“ segir Henry.
„Það er vel gert að skipta þessu í tvennt. Ég treysti Blikum fyrir því að láta þetta ekki fara í laun eða afreksstarf heldur í grasrótina eins og hann vildi klárlega.“
Hörður segir þetta hafa komið mörgum á óvart.
„Ég held að enginn í Kópavogi hafi áttað sig á að þessi maður ætti nokkra peninga. Hann hafði aldrei unnið hálaunuð störf, kemur ekki af ríku fólki. Hann var nægjusamur maður sem lagði allt inn á bók. Hrikalega vel gert.“