Henry Birgir Gunnarsson settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut alla föstudaga. Þar var einnig Hörður Snævar Jónsson, fréttastjóri íþróttafrétta á Torgi.
Enska úrvalsdeildin er farin aftur á fullt eftir hlé vegna HM í Katar.
Manchester United er á fínu skriði og var liðið til umræðu.
„Stundum þarf að skera burt krabbameinið. Það var alveg augljóst að Ronaldo var til trafala, með sinn prófíl og þá stefnu sem hann var á leið í,“ segir Hörður, en Cristiano Ronaldo yfirgaf United nýlega og er hann mættur til Al-Nassr í Sádi-Arabíu.
„Þetta var léttir fyrir klefann og þjálfarann. Ten Hag hefur verið grjótharður. Hann tekur Ronaldo og þorir að tækla þetta. Rashford mætir of seint á fund, verið besti leikmaður United á tímabilinu en hann tekur hann úr liðinu.
Spilamennska liðsins fer batnandi þó hún megi batna enn þá.“
Henry segir gott fyrir United að Erik ten Hag sé tekinn við.
„Ef eitthvað lið þurfti á aga að halda var það United.“