fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Rokkarinn Mick Jones fékk taugaáfall: „Ég var hræddur við allt“

Foreigner á Íslandi í vor – Fengu ekki sætustu grúppíurnar – Nýjar vinsældir

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 8. janúar 2018 11:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gítarleikarinn og lagasmiðurinn Mick Jones hélt nýverið upp á 73 ára afmælið sitt. Mick, sem er frá Portsmouth á suðurströnd Englands, hefur verið í bransanum síðan hann var 17 ára gamall, árið 1961, með ýmsum hljómsveitum en einnig sem sólólistamaður. Þekktastur er hann fyrir störf sín með rokkhljómsveitinni Foreigner en hljómsveitin heimsækir Ísland þann 18. maí næstkomandi. Meðal þekktustu laga Foreigner má nefna „Feels Like the First Time“, „Urgent“, „Cold as Ice“ og risasmellinn „I Want to Know What Love Is“. DV hafði samband við Mick sem er spenntur fyrir heimsókninni.

„Þetta verður hápunktur túrsins hjá okkur,“ segir Mick sem er nú staddur á heimili sínu í New York. „Ég bað skipuleggjendur túrsins um nokkra aukadaga á Íslandi þar sem við ætlum að reyna að ferðast aðeins um landið.“

Hefur þú komið áður til Íslands?

„Nei, aldrei. Ég hef ætlað að fara í nokkur skipti en ekki komist vegna anna. Ættingjar mínir hafa farið og ég er mjög forvitinn um landið.“

Ætla að spila smellina

Hljómsveitin Foreigner var stofnuð af nokkrum Bretum og Bandaríkjamönnum í New York árið 1976 og sló strax í gegn með samnefndri plötu ári seinna. Á þeim rúmum 40 árum sem Foreigner hefur verið starfandi hafa miklar mannabreytingar átt sér stað en Mick er sá eini sem hefur verið allan tímann, enda stofnandi og aðallagahöfundur sveitarinnar. Hann er langþekktasti meðlimur sveitarinnar auk söngvarans, Lou Gramm, sem hætti árið 2003.

Foreigner voru næstum gleymdir en hafa gengið í endurnýjun lífdaga með tónleikaferðalagi sínu árið 2017. Eruð þið í góðu formi?

„Við erum í frábæru formi. Ég man ekki eftir að við höfum nokkurn tímann verið jafn þéttir. Í upphafi ferilsins vorum við drifnir áfram af áhuga en nú er miklu meiri kraftur í okkur. Aðdáendurnir virðast ekki fá nóg og þeir tónleikar sem við spiluðum á árið 2017 voru langt yfir okkar væntingum.“

Munuð þið spila þekktustu lögin?

„Við ætlum að hafa tónleikahátíðarandrúmsloft á staðnum. Við höfum aldrei spilað á Íslandi áður og fólk vill fá að heyra okkar þekktustu lög. Þegar ég sjálfur fer á tónleika vona ég alltaf að mestu smellirnir séu spilaðir. Það er fátt verra en þegar söngvari segir að nú verði spiluð einhver B-hlið af nýrri plötu. Þær eru yfirleitt ekki góðar. Ég vil ekki vinna þannig, ég vil gefa fólkinu það sem það vill fá.“

Síðasta plata Foreigner, Can’t Slow Down, kom út fyrir níu árum. Er von á nýrri plötu í fyrirsjáanlegri framtíð?

„Með þessum auknu vinsældum sem við höfum fengið að undanförnu kemur það til greina. Ef við förum í upptökur verður það undir lok ársins þegar við höfum svolítinn lausan tíma.“

Hafið þið samið eitthvað nú þegar?

„Það er dálítið í potti sem við erum að hræra í.“

„Svona var rokklífið: kynlíf, eiturlyf og rokk og ról.“
Foreigner „Svona var rokklífið: kynlíf, eiturlyf og rokk og ról.“

Grét þegar hann hitti Bítlana

Mick er sjálflærður á gítar og hélt til Frakklands þegar hann var átján ára gamall til að spila fyrir Johnny Hallyday heitinn, hinn franska Elvis. Þar kynntist hann líka Bítlunum.

Vildirðu alltaf vera rokkgítarleikari?

„Þegar ég var lítill strákur og sá Buddy Holly í sjónvarpinu var framtíðin ákveðin. Hann var eins og Kristur. Það hafði svo mikil áhrif á mig að sjá þennan undarlega mann með gleraugun spila á Fender. Hann bjó yfir einhverjum galdri. Mér hefur alltaf liðið vel með gítar hangandi á öxlinni og svo er það líka frábær leið til að ná í stelpur. Það má ekki gleyma því,“ segir Mick og hlær.

Mick sá Bítlana á sviði í fyrsta skipti árið 1964 og vingaðist við þá eftir tónleikana.

Hvernig var að sjá slíkar stórstjörnur?

„Ég var algerlega bergnuminn. Ég stóð við hliðina á sviðinu þar sem þeir spiluðu og tárin runnu niður kinnarnar. Ég réð ekki við mig þótt mér fyndist þetta kjánalegt af mér. Að gráta á tónleikum. Að sjá þá spila öll þessi lög, þetta var ótrúleg reynsla fyrir ungan mann.“

Ekki alltaf sætar grúppíur

Stofnmeðlimir Foreigner komu flestir úr öðrum hljómsveitum og sjálfur hafði Mick náð örlítilli frægð með hljómsveitinni Spooky Tooth. Foreigner varð hins vegar gríðarlega vinsæl strax og fyrstu fimm plötur hljómsveitarinnar fóru á topp 5 í Bandaríkjunum.

Af hverju gerðist þetta?

„Nokkur eftirvænting var eftir fyrstu plötunni okkar þar sem við vorum flestir búnir að vera í öðrum hljómsveitum. Það voru tvö nokkuð sterk lög þarna og ég vonaði að þau gæfu okkur smá fótfestu. Ég hafði sjálfur engar svakalegar væntingar og bjóst ekki endilega við því að þetta yrði hljómsveitin sem ég yrði í fram á gamalsaldur. En platan var góð og einhvern veginn small allt saman. Ég get ekki útskýrt þetta allt saman og sérstaklega ekki af hverju hún seldist svo vel.“

Hvernig tókust þið á við frægðina?

„Ég hafði upplifað smá brjálæðistíma með Spooky Tooth og var aðeins viðbúnari en hinir.“

Var mikið partístand, grúppíur og eiturlyfjaneysla?

„Já, þannig var tíðarandinn. En oft voru þetta nú ekkert mjög sætar stelpur. En svona var rokklífið: kynlíf, eiturlyf og rokk og ról. Ég tók þátt í því en ekki jafn mikið og margir aðrir. Ég hafði ágæta stjórn á þessu framan af en á vissum tíma þurfti ég að leita hjálpar.“

Hélt að ferillinn væri búinn eftir taugaáfall

Mick segir það hafa verið mjög hvetjandi að komast á samning hjá Atlantic Records. „Við vorum fyrsta hljómsveitin hjá þeim sem seldi yfir milljón eintök af plötu. Við seldum meira en Rolling Stones, Led Zeppelin, Genesis og ELP hjá þeim.“

Hvaða lagi ertu stoltastur af?

„Ég held ég verði að velja Feels Like the First Time. Það opnaði svo margar dyr fyrir okkur. Ég hef enn mjög gaman af því að spila það. Þetta er glatt lag og markaði ákveðna stefnu fyrir okkur.“

Er einhver eftirsjá á ferlinum?

„Ég held að ég ætti ekki að leyfa mér neina eftirsjá. Á einhvern hátt leiddu örlögin mig eftir ákveðnum götum. Þegar ég var sautján ára, bjó í París og heimurinn opnaðist fyrir mér. Ef ég lít til baka þá myndi ég ekki breyta neinu. Ég er mjög þakklátur fyrir það sem ég hef náð að gera á ferli mínum.“

„Ég hélt að ég gæti aldrei spilað tónlist aftur. Ekki keyrt bíl eða hjólað á reiðhjóli“

Fyrir fimm árum fór Mick í hjartaaðgerð sem átti eftir að hafa miklar afleiðingar. Hann fékk röng lyf eftir aðgerðina, gekk illa að jafna sig og fékk taugaáfall. „Þetta sendi mig á verulega vondan stað og það tók mig ár að jafna mig. Enginn getur skilið þetta fullkomlega án þess að hafa lent í þessu sjálfur. Ég molnaði algerlega niður og leitaði sálfræðiaðstoðar. Ég þurfti að læra að hugsa jákvætt aftur.“

Hvernig hamlaði þetta þér?

„Ég hélt að ég gæti aldrei spilað tónlist aftur. Ekki keyrt bíl eða hjólað á reiðhjóli. Ég var hræddur við allt. Þetta var auðvitað mjög hamlandi og ég hélt að ferillinn væri búinn. En ég komst yfir þetta með stuðningi fjölskyldunnar og hljómsveitarinnar. Ég tel mig mjög heppinn mann.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“