The Independent skýrir frá þessu og segir að konan, Kulsuma Akter, hafi áður flúið ofbeldi eiginmannsins, Habibur Masum, og dvaldi í kvennaathvarfi í Bradford.
Masum réðst af mikilli heift á hana vopnaður hnífi þar sem hún var á gangi með sjö mánaða son þeirra í barnavagni.
Masum var sakfelldur fyrir morðið af undirrétti í Bradford á föstudaginn. Fyrir dómi kom fram að hann hafi veiti Akter mikla áverka og skilið hana eftir „til að blæða út í göturæsi“ áður en hann gekk rólegur á brott. Hann skildi son þeirra eftir hjá Akter.
Akter hafði flúið undan ofbeldi Masum og leitað skjóls í kvennaathvarfi. Hann fann hana með því að nota staðsetningarbúnað farsíma hennar. Á upptökum úr eftirlitsmyndavélum sést að hann hélt sig nærri kvennaathvarfinu dagana á undan morðinu.
Hann sendi henni skilaboð og hótaði að drepa alla fjölskyldu hennar ef hún sneri ekki aftur til hans. Hann reyndi einnig að blekkja hana með því að senda henni skilaboð sem áttu að vera frá heimilislækni en í þeim stóð að sonur þeirra ætti pantaðan tíma og það myndi hafa mjög alvarlegar afleiðingar ef hún mætti ekki með hann.
Akter þorði loks að fara út fyrir hússins dyr þegar hún sá á Facebook að Masum sagðist vera á Spáni. Hún fór í göngutúr í miðborginni með vinkonu sinn. Það var þá sem Masum réðst á hana og banaði.