Sannkallað blóðbað átti sér stað á skrifstofum orkusölufyrirtækisins Überlandwerk Rhön, sem staðsett er í smábænum Mellrichstadt í Bæjaralandi. Tuttugu og eins árs gamall starfsmaður, Yannick að nafni, mætti þá í vinnuna með hníf meðferðis. Hafði Yannick ekki látið sjá sig á vinnustaðnum í langan tíma.
Bild greinir frá þessu. Kemur fram í fréttinni að 59 ára gömul kona lést af stunguáverkum mannsins sem stakk fólk sem hann náði til ótt og títt. Tveir karlmenn voru fluttir lífshættulega særðir á sjúkrahús.
Hópur starfsmanna réðst á Yannick og hafði hann undir. Héldu þeir honum föstum þar til lögregla kom á vettvang og handtók hann.
Málið er í rannsókn og miðar hún m.a.s. að því að finna ástæður fyrir ódæðinu. Ekkert hefur komið fram sem skýrir hvers vegna Yannick veittist með þessum hætti að vinnufélögum sínum.
Starfsfólki á skrifstofum Überlandwerk Rhön hefur verið boðin áfallahjálp vegna voðaatburðarins.