En gerir áfengi fólk hreinskilnara? Svarið er bæði já og nei að sögn sérfræðinga sem Live Science ræddi við.
Aron White, forstjóri National Institute on Alchol Abuse and Alcoholism‘s Epidemiology and Biometry Branch, sagði í samtali við Live Science að áfengi valdi því að fólk sé líklegra til að segja það sem því býr í huga. „Í sumum tilfellum gæti það verið sannleikurinn. Í sumum tilfellum gæti það verið það sem þú, í þínu ölvunarástandi, heldur að sé sannleikurinn,“ sagði hann.
Það eru því meiri líkur en minni á að fólk segi hug sinn eftir að hafa fengið sér nokkra drykki. En það er einnig hugsanlegt að það segi eitthvað sem því finnst vera rétt en myndi ekki taka alvarlega ef það væri ódrukkið.
Rannsókn frá 2017, sem var birt í vísindaritinu Clinical Psychologial Science, beindist að breytingum á persónuleika fólks eftir að það hafði drukkið nægilega mikið af vodka til að áfengismagnið í blóði þeirra mældist 0,09%.
Mesta breytingin á persónuleika fólks, eftir að hafa drukkið áfengi, var að það varð mun opnara. Í rannsókninni var sjónunum ekki beint að því hvort áfengi væri sannleikslyf en það að áfengi geri fólki auðveldara fyrir við að vera innan um annað fólk, styður að það sé líklegra til að vera hreinskilið.
White benti á að sá eiginleiki áfengis að geta hjálpað fólki við að komast úr skel sinni og segja það sem því býr í huga geti einnig valdið því að ruglingur komist á hugsanir fólks.
„Áfengi er ekki sannleikslyf. Það er öruggt,“ sagði White.