Í kjölfar hryðjuverksins í Hanau í Þýskalandi í síðustu viku, þar sem hinn 43 ára Tobias R. myrti 9 gesti á vatnspípukaffihúsum og síðan móður sína áður en hann tók eigið líf, sagði Horst Seehofer, innanríkisráðherra, að Þýskalandi stafi ógn af öfgahægrimönnum.
Leyniþjónusta norsku lögreglunnar telur jafnmiklar líkur á að öfgahægrimenn fremji hryðjuverk þar í landi eins og að öfgafullir múslimar geri það. Leyniþjónustan bendir einnig á að öfgahægrimenn séu nái sífellt betri tengslum sín á milli þvert á landamæri. Norskir öfgahægrimenn eru sagðir eiga í meiri alþjóðlegum samskiptum en áður og að þeir noti sama áróður og öfgasinnaðir íslamistar. Leyniþjónustan bendir einnig á að 2018 hafi sjö hryðjuverk verið framin í heiminum sem tengja mátti við öfgahægrisinna. 2019 voru þau sextán segir í umfjöllun Jótlandspóstsins.
Magnus Ranstorp, einn fremsti sérfræðingur Norðurlandanna í málefnum hryðjuverkamanna, segir engan vafa leika á að mikill uppgangur sé nú hjá öfgahægrimönnum í Evrópu. Leyniþjónustur beini nú sjónum sínum enn frekar að öfgahægrimönnum og að full ástæða sé til því vænta megi fleiri árása á moskur og innflytjendur.