Pressan fjallaði um mál Suttons í gær en hann var dæmdur til dauða fyrir morð á samfanga sínum, Carl Estep, dæmdum nauðgara, árið 1986. Þar áður hafði hann verið dæmdur í fangelsi fyrir þrjú morð árið 1979, myrti hann ömmu sína meðal annars.
Sjá einnig: Fangi á dauðadeild fær stuðning úr óvæntri átt
Meðal þeirra sem skrifuðu undir áskorun þess efnis að dauðadómnum yrði breytt voru aðstandendur Estep og núverandi og fyrrverandi starfsmenn í fangelsinu í Tennessee þar sem Estep afplánaði. Sögðu þeir hann hafa tekið miklum breytingum á þeim rúmu 30 árum sem liðin eru frá því að dauðadómurinn var kveðinn upp.
Þá sagði dóttir Esteps að Sutton hafi gert fjölskyldu hennar greiða þegar hann myrti föður hennar. „Ég get sagt í fullri hreinskilni að ég hef aldrei kynnst fanga sem hefur tekið jafn miklum breytingum og Nick Sutton,“ sagði Tony Eden, fyrrverandi yfirfangavörður í fangelsinu. Benti hann á að Sutton hefði til að mynda bjargað lífi hans þegar fangar gerðu uppreisn í fangelsinu á níunda áratug síðustu aldar.
Uppvaxtarár Suttons voru erfið og einkenndust þau af ofbeldi, vanrækslu og síðar mikilli fíkniefnaneyslu.
Ríkisstjóri Tennessee hafnaði beiðni lögmanna hans um miskunn og var Sutton úrskurðaður látinn klukkan 19:26 í gærkvöldi að staðartíma. Hann þakkaði þeim sem studdu hann áður en hann var tekinn af lífi og sagðist kveðja sáttur.