fbpx
Fimmtudagur 13.júní 2024
Pressan

Stúlkurnar í Soham – Ótal konur sem líkjast henni í útliti verða fyrir aðkasti

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 3. febrúar 2019 17:43

Jessica Chapman og Holly Wells í grillveislunni 4. ágúst 2002.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sunnudaginn 4. ágúst árið 2002 héldu Kevin og Nicola Wells grillveislu í bænum Soham í Cambridgeskíri á Englandi. Þau buðu vinafólki sínu, Leslie og Sharon Chapman. Dætur hjónanna, þær Holly Wells og Jessica Chapman, voru báðar tíu ára og bestu vinkonur. Eftir grillveisluna fengu Jessica og Holly klink til að fara út í búð að kaupa bland í poka.

Klukkan var 18:15 þegar þær lögðu af stað, á leiðinni heim úr sjoppunni hurfu þær sporlaust.

Foreldrar þeirra voru fljótir að hringja á lögregluna þegar stúlkurnar skiluðu sér ekki heim, umfangsmikil leit hófst í kjölfarið og komst málið fljótt í heimspressuna. Að kvöldi 13. ágúst fundust tveir hólar og heimurinn saup hveljur, engin lík fundust og reyndust hólarnir vera eftir moldvörpu.

Fjölmiðlar ræddu  ítrekað við fólk í hverfinu og fólk sem þekkti stúlkurnar.

 Svellkaldur – Ian Huntley í sjónvarpsviðtali

Sum viðtalanna vakti áhuga lögreglu en það voru viðtöl við fólkið sem sá stúlkurnar síðast. Ian Huntley húsvörður í skóla Hollyar og Jessicu og Maxine Carr, skólaliða í skólanum og sambýliskonu Ians. Sérstaklega viðtalið við Maxine, sem sýndi fréttamanni kort sem Holly hafði gefið henni á síðasta skóladeginum fyrir sumarfrí, sagði Maxine:

Hún var yndisleg, alveg yndisleg.

Þetta kann að hljóma sakleysislega, en hvers vegna talaði hún um Holly í þátíð? Þann 16. ágúst voru  Maxine og Ian kölluð til yfirheyrslu. Eftir sjö klukkutíma yfirheyrslu var þeim sleppt og gerð var leit á heimili þeirra. Þar fundust Manchester United treyjurnar sem þær höfðu verið í ásamt öðrum fatnaði. Ian Huntley og Maxine Carr voru handtekin að morgni 17. ágúst 2002, grunuð um morð. Lögreglan hafði verið í vörn gagnvart fjölmiðlum frá fyrsta degi og neitað að koma með kenningar um hvað hefði getað gerst, en að morgni sautjánda þurftu yfirvöld að viðurkenna að þar væri mikill ótti um að stúlkurnar væru látnar.

Um nóttina fundust tvö illa farin lík í skurði nokkrum kílómetrum frá Soham.

Ian Huntley og Maxine Carr voru formlega ákærð fyrir tvö morð. Engin ástæða virtist vera fyrir hvers vegna eðlilegt fólk myndi myrða tvær tíu ára stelpur. Eða hvað?

Ian Huntley fæddist 31. janúar 1974 í Grimsby. Í ágúst 1995, þegar Ian var 21 árs, var hann kærður fyrir að hafa sængað hjá ólögráða stúlku í Grimsby. Lögreglan ræddi við stúlkuna og ákvað í kjölfarið að hætta rannsókninni. Hálfu ári síðar var hann ákærður ásamt öðrum fyrir innbrot en dómarinn ákvað að fella niður ákæruna í þágu almannahagsmuna. Einnig var rannsakað hvort hann hafi sængað hjá annarri ólögráða stúlku, en líkt og fyrr, ákvað lögreglan að hætta rannsókn.

Í apríl 1998 var hann handtekinn fyrir að nauðga konu, Ian sagði að hann hefði sofið hjá henni en það hefði ekki verið nauðgun. Ítrekað var Ian Huntley handtekinn og rannsakaður fyrir nauðgun eða að hafa sofið hjá ólögráða stúlkum en aldrei var gefin út ákæra. Í síðasta skiptið, í júlí 1999 var Ian byrjaður að búa með Maxine Carr og gaf hún honum fjarvistarsönnun.

Ian og Maxine sumarið 2000.

Þetta reyndi hún aftur þegar kom að morðunum á Jessicu og Holly. Maxine sagði við yfirheyslu hafa verið með Ian allan tímann og hann hefði ekki gert þeim neitt nema vinka og segja hæ. Þetta stóð ekki lengi enda hafði hún verið í Grimsby 4. ágúst og nóg var til af vitnum um það.

Ljóst var að Ian átti aldrei að hafa fengið vinnu sem húsvörður í grunnskóla, enginn hafði haft fyrir því að fletta upp nafninu hans í opinberum gögnum áður en að gefa honum starf. Skólastjórnendur sögðu við fjölmiðla að Ian hefði sótt um starfið undir dulnefninu Ian Nixon og fengu yfir mikla gagnrýni enda stóð Ian Huntley skýrum stöfum í gögnum skólans.

Einbeittur brotavilji

Saksóknari mætti fyrir dóminn með sterkt mál undir höndum. Leyft var að upplýsa kviðdóminn um sakaferil hans og kenningin um glæpinn var byggð á sterkum sönnunargögnum:

Stúlkurnar voru lokkaðar inn í hús Ians. Hann barði þær og drekkti þeim í baðkarinu. Hann setti þær í skottið á bílnum sínum. Henti þeim í skurð og kveikti í líkunum. Svo hafi Ian fengið Maxine til gefa honum fjarvistarsönnun.

Ian var ekki á sama máli, eftir að hafa stöðugt neitað að hafa komið nálægt hvarfi stúlknanna játaði hann loks að hafa orðið þeim að bana fyrir slysni. Holly hafi komið inn til hans úr sjoppunni með blóðnasir. Hann hafi svo óvart kæft hana í tilraun sinni að stöðva blæðinguna. Jessica á að hafa séð þetta og hann því þurft að drepa hana líka til að lenda ekki í vandræðum.

Farið var fram á geðmat. Dr. Christopher Clark sagði fyrir dómi:

Þó Hr. Huntley hafi reynt allt sem hann gat til að þykjast þjást af einhverskonar geðsjúkdómi, þá efast ég ekki um að maðurinn sé nú, og þegar hann framdi morðin, bæði líkamlega og andlega heill og þar af leiðandi, ef hann er dæmdur sekur, framdi hann morðin vísvitandi.

Ian Huntley var dæmdur til lágmark 40 ára fangelsisvistar og litlar líkur eru á að hann sleppi út. Hann reyndi að fremja sjálfsvíg sumarið 2003 með því að gleypa 23 töflur af þunglyndislyfi. Tveimur árum síðar var ráðist á hann og sakaði hann fangelsisyfirvöld um að sýna honum enga samúð.

Ian Huntley í kjölfar árásar innan fangelsins.

Ári síðar reyndi hann aftur að fremja sjálfsmorð með því að gleypa pillur en honum var bjargað á síðustu stundu. Í klefa hans fannst upptaka af játningum Ians sem ætluð var öðrum fanga til að selja til fjölmiðla.

Aldrei hefur verið upplýst hvort hann hafi brotið kynferðislega á Holly og Jessicu, en í apríl 2007 viðurkenndi hann að árið 1997 hafi hann nauðgað 11 ára stúlku. Síðast var ráðist á Ian innan veggja fangelsins árið 2011 þegar reynt var að skera hann á háls. Hann dúsir nú í Frankland-fangelsinu nálægt Durham.

Maxine Carr var dæmd í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir yfirhylmingu. Hún sat einungis 16 mánuði í fangelsi og fékk nýtt nafn. Ótalmargar konur sem líkjast henni í útliti segjast reglulega verða fyrir aðkasti frá fólki. Óstaðfestar fregnir herma að vorið 2014 hafi Maxine eignast sitt fyrsta barn og hafi gift sig á Spáni.

Kevin og Nicola Wells ásamt Leslie og Sharon Chapman fengu um 2,2 milljónir króna, eða 11 þúsund pund fyrir hvora stúlkuna í bætur frá breska ríkinu.

Holly Wells og Jessica Chapman hefðu orðið 29 ára í haust.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

YouTube-stjarnan látin eftir „óheppilegt slys“

YouTube-stjarnan látin eftir „óheppilegt slys“
Pressan
Í gær

Karl konungur „mun hvorki hægja á sér né gera eins og honum er sagt“

Karl konungur „mun hvorki hægja á sér né gera eins og honum er sagt“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Virtur jógaskóli eða sértrúarsöfnuður sem gerir út vændi? – Ásakanir um heilaþvott, peningaþvætti og þjónustu við áhrifamikla einstaklinga

Virtur jógaskóli eða sértrúarsöfnuður sem gerir út vændi? – Ásakanir um heilaþvott, peningaþvætti og þjónustu við áhrifamikla einstaklinga
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fékk áfall þegar hún komst að því hver innbrotsþjófurinn var

Fékk áfall þegar hún komst að því hver innbrotsþjófurinn var
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ár í Alaska eru appelsínugular vegna eiturefna sem losna úr sífreranum

Ár í Alaska eru appelsínugular vegna eiturefna sem losna úr sífreranum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Einangraður samfélagshópur er með ævafornt gen sem styrkir ónæmiskerfið

Einangraður samfélagshópur er með ævafornt gen sem styrkir ónæmiskerfið