fbpx
Laugardagur 05.desember 2020
Pressan

Djúp gjá á milli Þýskalands og Frakklands hvað varðar framtíðarstefnu ESB

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 17. maí 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frakkar og Þjóðverjar eru nágranna- og vinaþjóðir og samskipti ríkjanna eru með miklum ágætum. Í landamærahéruðum ríkjanna ferðast fólk mikið yfir til nágranna sinna til að sækja sér eitt og annað sem kannski ekki er í boði í heimalandinu eða er hagstæðara að kaupa hjá nágrönnunum, nú eða bara til að njóta þess sem nágrannarnir hafa upp á að bjóða í menningu af ýmsu tagi. Það er því ekki óalgengt að rekast á Þjóðverja á frönskum veitingastöðum nærri landamærum ríkjanna eða Frakka í þýsku landamærahéruðunum að sýsla eitt og annað. Almenn samskipti fólks eru góð og vinsamleg en á hinu pólitíska sviði eru ríkin ekki samstíga og hafa ólíka sýn á framtíð og stefnu Evrópusambandsins.

Nú er útganga Breta úr ESB yfirvofandi og þegar og ef þeir yfirgefa sambandið verða Þýskaland og Frakkland stærstu og áhrifamestu ríkin innan sambandsins. Margir hafa áhyggjur af því að útganga Breta muni hafa neikvæð áhrif á samskipti Frakka og Þjóðverja og samskiptavél þeirra fari að hiksta og hefur verið bent á að þegar ríkin tvö vinna ekki saman þá fari hlutirnir úrskeiðis í Evrópu.

Macron Frakklandsforseti
Vill endurbætur í varnarmálum og gjaldeyrismálum.

Sjóðandi heitt mál

Margir sérfræðingar eru sammála um að í aðdraganda Brexit og þeirra vandræða sem hafa fylgt fyrirhugaðri útgöngu hafi evrópskir leiðtogar dansað í kringum sjóðandi heitt málið og verið mjög hikandi. Þeir hafi forðast að segja eða gera nokkuð það sem getur ruggað bátnum. Þetta hefur orðið til þess að lítið er að gerast innan ESB og virðast flestir forðast alla ákvarðanatöku.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti reynir að fá Þjóðverja í lið með sér við endurbætur á einu og öðru er varðar ESB, þar á meðal í varnarmálum og varðandi evruna. Þjóðverjar hafa þó ekki viljað gera neitt að sinni og virðast bíða. Macron hefur reynt að koma hreyfingu á málin með því að leggja til víðtækar grundvallarbreytingar á ESB. Með þeim á að þjappa ESB-ríkjunum, sem eftir verða eftir útgöngu Breta, betur saman til að sýna og sanna að evrópskt samstarf sé enn við hestaheilsu og bjartsýni sé ríkjandi. Markmið Macron er að mynda andsvar við þeim flokkum sem efast um tilverurétt og gagnsemi ESB en þeir eiga miklu fylgi að fagna víða í álfunni. Macron leggur til að ESB-ríkin stofni sameiginlegan her til að ESB verði ekki eins háð Bandaríkjunum í varnarmálum. Auk þess berst hann fyrir því að evruríkin geri sameiginlega fjármálaáætlun, sameiginlegar reglur um atvinnuleysisbætur og að ESB krefji tæknirisa á borð við Facebook og Google um skatt.

 

Angela Merkel
Hefur sýnt Bretum þolinmæði.

Miklar efasemdir

Þessar tillögur Macron hafa ekki hlotið mikinn hljómgrunn og hefur raunar verið mætt með miklum efasemdum og hafa aðallega valdið pirringi. Ekki síst í Berlín þar sem Annegret Kramp-Karrenbauer, nýr formaður Kristilegra demókrata (flokks Angelu Merkel kanslara),  gerði nánast út af við hugmyndir Macron þegar hún sagði að tillögur hans væru „röng leið“. Til að leggja áherslu á mál sitt, og kannski til að sýna að ekki sé hægt að líta á hana sem einhvern sérstakan vin Frakka í Evrópu, þá setti hún fram tillögu um að loka þeirri deild Evrópuþingsins sem er í Strassborg í Frakklandi. Með þessu sendi hún sterk skilaboð því um leið og einhver setur spurningarmerki við staðsetningu Evrópuþingsins í Strassborg er ljóst að viðkomandi er enginn sérstakur vinur stjórnvalda í París. Starfsemi Evrópuþingsins í Strassborg er eitthvað sem Frakkar hafa ekki verið fúsir til að ræða eða breyta en á undanförnum árum hefur verið mikill þrýstingur um að hætta að flytja þinghaldið þangað frá Brussel í eina viku í hverjum mánuði með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir marga. Hefur þetta fyrirkomulag oft verið nefnt ferðasirkusinn. Ekki er hægt að breyta þessu fyrirkomulagi nema öll aðildarríki ESB samþykki og því geta Frakkar komið í veg fyrir allar breytingar á þessu.

Hvað varðar tengslin við Breta eru þessi tvö áhrifamestu ESB-ríki ósammála. Angela Merkel hefur rekið mjúka og þolinmóða stefnu í garð Breta en Macron hefur verið harðari í horn að taka og setti fram harða kröfu um frest Breta til útgöngu úr sambandinu. Sjónarmið Frakka var að Bretar eigi ekki að fá neina sérmeðferð og að ESB eigi að sýna festu. Leiðtogar ESB-ríkjanna eigi því ekki að venja sig á að halda leiðtogafundi til að undirbúa næsta leiðtogafund þar sem engin ákvörðun verður tekin frekar en á undirbúningsfundinum. Þá er Macron ósáttur við að Bretar taki þátt í kosningum til Evrópuþingsins síðar í maí.

Þjóðverjar vilja allra helst að ESB tryggi opið markaðshagkerfi og aðgang að innri markaði sambandsins. Þegar, og ef, af Brexit verður mun koma enn betur í ljós hversu andstæð sjónarmið Þjóðverja og Frakka eru í þessum efnum. Frakkar hafa lengi verið frekar á þeirri línu að láta ríkið hafa meiri áhrif á flestum sviðum þjóðfélagsins og vilja viðhafa ákveðna verndarstefnu en Bretar og Þjóðverjar hafa viljað opið og frjálst markaðshagkerfi. Bretar og Frakkar hafa sinnt utanríkismálum af krafti en Þjóðverjar hafa ekki verið eins áhugasamir um þann málaflokk. Frakkar og Þjóðverjar voru Evrópusinnaðir en Bretar frekar efasemdafullir. Allt hefur þetta skapað einhvers konar jafnvægi innan ESB, jafnvægi sem raskast og hrynur jafnvel til grunna ef og þegar Bretar yfirgefa sambandið. Það er ekki til að bæta ástandið að önnur aðildarríki ESB eru jafn ósammála og Þjóðverjar og Frakkar hvað varðar framtíðina.

 

Hvað gerist eftir Brexit?

Þegar rykið sest eftir útgöngu Breta mun myndast ákveðin þörf til að aðlaga sambandið að nýrri stöðu, jafnt innan sambandsins og gagnvart heimsmyndinni í heild. Bandaríkin eru ekki lengur öruggur bandamaður, Rússar eru hugsanleg ógn, Kínverjar eru reiðubúnir til að gleypa evrópsk fyrirtæki með húð og hári og straumur flóttamanna frá Afríku til Evrópu gæti aukist mikið. Það er því ljóst að einhver ríki verða að vera í fararbroddi þrátt fyrir að ekki vilji allir vera með. Óháð núverandi efasemdum munu margar af hugmyndum Macron því aftur koma til umræðu og niðurstaðan gæti orðið að ESB haldi áfram för sinni á ólíkum hraða í hinum ýmsu málaflokkum. Ef finna á lausn á loftslagsmálunum og neikvæðum hliðum hnattvæðingarinnar er ekki hægt að búa við kyrrstöðu og sambandið neyðist til að taka af skarið.

Utanríkisstefnan verður eflaust þung í skauti enda eru Frakkar og Þjóðverjar yfirleitt ekki samstíga í henni en verða að vera í fararbroddi ESB enda valdamestu ríkin innan sambandsins. Þá má ekki gleyma evrunni sem mörg aðildarríki ESB nota nú sem gjaldmiðil. Spurning er hvort Þjóðverjar muni taka stóra skrefið í átt að sameiginlegum fjárlögum, sameiginlegum skattareglum innan ESB og öðrum hlutum sem þarf að samhæfa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Sónarmyndirnar sýndu óhugnaðinn í maga hans

Sónarmyndirnar sýndu óhugnaðinn í maga hans
Pressan
Í gær

Obama, Bush og Clinton bjóðast til að láta bólusetja sig opinberlega – Vilja sýna að bóluefnið er öruggt

Obama, Bush og Clinton bjóðast til að láta bólusetja sig opinberlega – Vilja sýna að bóluefnið er öruggt
Pressan
Fyrir 2 dögum

Draga 13 til ábyrgðar fyrir banvæna ferð til eldfjallaeyju

Draga 13 til ábyrgðar fyrir banvæna ferð til eldfjallaeyju
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þýskur gjörgæslulæknir – „Við erum á mörkum þess gerlega“

Þýskur gjörgæslulæknir – „Við erum á mörkum þess gerlega“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hryllingur í Þýskalandi í dag – Ungbarn á meðal hinna látnu eftir að miðaldra maður ók inn í göngugötu

Hryllingur í Þýskalandi í dag – Ungbarn á meðal hinna látnu eftir að miðaldra maður ók inn í göngugötu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ók yfir fólk í göngugötu – Tveir látnir og margir slasaðir

Ók yfir fólk í göngugötu – Tveir látnir og margir slasaðir