fbpx
Sunnudagur 08.desember 2024
Fréttir

Reykjavíkurborg hefur eytt um 200 milljónum í hugmyndavinnu og hönnun vegna framkvæmda sem hefjast eftir meira en ár

Ritstjórn DV
Mánudaginn 11. nóvember 2024 13:48

Miklar breytingar eru fyrirhugaðar á Grófarhúsi en deilt er um kostnað vegna hugmyndavinnu og hönnunar. Mynd; Skjáskot/Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi menningar -, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar síðastliðinn föstudag var lagt fram svar sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við fyrirhugaðar framkvæmdir í Grófarhúsi. Samkvæmt svarinu hefur þegar um 200 milljónum króna verið eytt vegna hönnunar og hugmyndavinnu en framkvæmdirnar sjálfar, sem áætlaðar er að kosti samtals 5,3 milljarða króna, eru ekki hafnar en áætlað er að þær hefjist árið 2026, þ.e.a.s. eftir meira en eitt ár.

Grófarhús er eins og flestir væntanlega vita við Tryggvagötu í miðborg Reykjavíkur. Þar eru Borgarbókasafnið og Ljósmyndasafn Reykjavíkur til húsa og Borgarskjalasafn var þar einnig þar til það var lagt niður.

Fram hefur komið að fyrirhugaðar framkvæmdir fela í sér miklar breytingar á Grófarhúsi. Í frétt Vísis á síðasta ári kom fram að samkvæmt tillögu sem bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni verða meðal annars gerðar miklar breytingar á forsal Borgarbókasafnsins, stigi upp á aðra hæð verður brotinn, brotið milli hæða, opnað upp í loft, gluggar stækkaðir og göngugata lögð í gegnum húsið.

Þegar úrslitin voru tilkynnt í lok nóvember 2022 sagði Dagur B. Eggertsson þáverandi borgarstjóri samkvæmt tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar að hugmyndin með fyrirhuguðum framkvæmdum sé að Borgarbókasafnið fái allt húsið til afnota og markmiðið sé að uppfylla sem best þær kröfur sem gerðar séu til nútíma bókasafna sem hýsi fjölbreytta þjónustu og dagskrá fyrir íbúa og aðra.

„Við viljum að Grófarhús fái nýtt líf sem opin og skemmtileg bygging, lifandi samfélags- og menningarhús í takt við vel heppnuð dæmi hjá nágranna- og vinaþjóðum okkar,“ sagði Dagur í tilynningunni.

Bíða vegna kostnaðar

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menningar -, íþrótta- og tómstundaráði, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, hefur í áðurnefndri frétt Vísis og víðar gagnrýnt framkvæmdirnar í ljósi kostnaðarins við þær og hefur hvatt til þess að þeim verði slegið á frest a.m.k. þar til fjárhagsstaða borgarinnar batni.

Samkvæmt fundargerð fundar ráðsins í síðastliðnum mánuði lögðu bæði Ragnhildur Alda og hinn fullltrúi flokksins í ráðinu Kjartan Magnússon fram þessa fyrirspurn um kostnað sem þegar hefur fallið á borgina vegna þessara framkvæmda. Samkvæmt svari Eiríks Björns Björgvinssonar sviðstjóra menningar- og íþróttasviðs nær kostnaðurinn yfir árin 2020-2024. Hönnunarsamkeppni, á árunum 2020-2023, kostaði 61,3 milljónir króna. Forhönnun kostaði 48,6 milljónir á árinu 2023. Aðalsamningur um hönnun hefur á þessu og síðasta ári kostað borgina 64,8 milljónir króna. Verkefnastjórn Grófarhúss hefur á þessu og síðasta ári kostað borgina 8,8 milljónir. Skönnun á húsnæðinu hefur kostað á þessu ári 7,7 milljónir króna og loks hefur verkhönnun, á þessu ári, kostað 6,7 milljónir.

Allar þessar tölur eru námundanir en nákvæmar tölur má sjá með því að smella á tengilinn á svarið.

Heildarkostnaður borgarinnar vegna hugmyndavinnu og vinnu við hönnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Grófarhús stendur nú í 197.829.103 krónum.

Ekki brýn þörf

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundi menningar -, íþrótta- og tómstundaráðs síðastliðinn föstudag þar sem svarið var lagt fram er kostnaðurinn gagnrýndur og fullyrt að ekki sé brýn þörf á svo umfangsmiklum framkvæmdum í Grófarhúsi. Er bókunin að mestu leyti samhljóða bókun sem Sjálfstæðismenn lögðu fram á fundi ráðsins í október.

Í bókuninni segir meðal annars að kostnaðurinn sé gífurlegur þegar haft sé í huga að verkefnið sé enn á hugmyndastigi. Þegar Borgarbókasafn, Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur  hafi flutt í Grófarhús hafi verið ráðist í miklar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu. Þótt þörf sé á ákveðnu viðhaldi sé ekki brýn þörf fyrir algera og „fokdýra“ umbreytingu á húsinu eins og meirihluti borgarstjórnar stefni að. Í október síðastliðnum hafi heildarkostnaður við umbreytingu hússins verið áætlaður 5.324 milljónir króna. Athygli veki að kostnaður við hönnun og verkefnastjórn sé áætlaður 1.165 milljónir króna eða 22% af heildarkostnaði við verkefnið. Reynslan sýni að slík endurbyggingarverkefni fari jafnan langt fram úr áætlunum. Á þessu stigi hönnunar séu vikmörk mikil vegna óvissuþátta, sem gera megi ráð fyrir að gætu numið  meira en 50 prósent samkvæmt samantekt um málið frá 19. apríl 2023. Ljóst sé að kostnaður við umbreytingu Grófarhúss verði gífurlegur. Að lokum segir í bókuninni:

„Furðu sætir að slík framkvæmd sé sett í forgang vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og uppsafnaðrar viðhaldsskuldar sem nemur tugum milljarða króna. Ekki er verjandi að ráðast í svo dýra framkvæmd, sem þar að auki felur í sér mikla kostnaðaráhættu, á meðan húsnæði borgarinnar liggur víða undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi og mygluskemmdir há starfi í mörgum skólum.“

Ekki í forgangi

Fultrúar meirihlutaflokkanna svöruðu bókun Sjálfstæðismanna með eigin bókun þar sem segir að það sé ekki rétt að framkvæmdirnar hafi verið settar í forgang:

„Að undanförnu hefur staðið yfir hugmyndavinna og ákveðin vinna við hönnun og forhönnun. Ekki stendur til að ráðast í framkvæmdir í húsinu á næstu mánuðum en  skynsamlegt er að búa í haginn til að hægt sé að ganga til verka þegar fjárfestingarsvigrúm er orðið meira.“

Í greinargerð menningar- og íþróttasviðs sem fylgir frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2025 segir að hönnunarfasi Grófarhúss sé í fullum gangi og unnið verði þétt með hönnunarteyminu að fullnaðarhönnun hússins út árið 2025 en áætlað sé að framkvæmdir hefjist fyrri hluta ársins 2026. Þarfagreining vegna tímabundinnar aðstöðu verði lögð fram á haustdögum 2024 og hafinn sé undirbúningur að því að flytja safnefni, búnað og starfsfólk Borgarbókasafnsins í annað og tímabundið húsnæði.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Vuk í Fram
Fréttir
Í gær

Ólafur varar við samstarfi við Ingu Sæland – „Krefst árásar á félagsmenn lífeyrissjóða“

Ólafur varar við samstarfi við Ingu Sæland – „Krefst árásar á félagsmenn lífeyrissjóða“
Fréttir
Í gær

Hannes gagnrýnir Þórdísi Kolbrúnu harðlega: „Ég veit ekki á hvaða ferðalagi hún er“

Hannes gagnrýnir Þórdísi Kolbrúnu harðlega: „Ég veit ekki á hvaða ferðalagi hún er“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tónlistarflytjendurnir sem fá listamannalaun 2025

Tónlistarflytjendurnir sem fá listamannalaun 2025
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gunnar Smári hefur ekki trú á að stjórnarmyndunin takist – „Ég býst við að Samfylkingarfólk sé að vakna upp við þessa stöðu núna“

Gunnar Smári hefur ekki trú á að stjórnarmyndunin takist – „Ég býst við að Samfylkingarfólk sé að vakna upp við þessa stöðu núna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Örvæntingarfull leit að lottóvinningshafa – Milljarðar renna honum úr greipum á laugardag

Örvæntingarfull leit að lottóvinningshafa – Milljarðar renna honum úr greipum á laugardag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýr meðferðargangur opnaður á Litla Hrauni

Nýr meðferðargangur opnaður á Litla Hrauni