fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Hvaða áhrif hefur verkfall Eflingar?

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 15. febrúar 2023 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verkfall hjá Eflingu hófst á hádegi í dag þegar 70 vörubílstjórar hjá Samskipum, Skeljungi og Olíudreifingu, og 500 starfsmenn Berjaya-hótela og Edition lögðu niður störf. Fyrir voru um 300 félagar Eflingar á Íslandshótelum í verkfalli.

Verkfallið mun standa þangað til því hefur verið aflýst af félaginu. Baráttu- og upplýsingafundur Eflingar hófst kl. 12 í Norðurljósasal Hörpu og stendur til kl. 16. Sáttafundur stendur yfir milli aðila, en Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilunni, boðaði aðila til fundar kl. 9 í morgun og hófst hann að nýju eftir hádegishlé.

Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífsins, sagðist í morgun úti­loka samninga við Eflingu á öðrum grunni en við önnur stéttar­fé­lög.

„Ég sé fyrir mér að verk­föll muni lama ís­lenskt sam­fé­lag að öllu leyti fyrir eða eftir helgi. Hér verður komið upp ó­fremdar­á­stand sem mun snerta alla Ís­lendinga með beinum hætti, annars vegar í gegnum verk­fall Olíu­dreifingar og hins vegar vegna af­leiddra á­hrifa þess á sam­fé­lagið. Sam­göngur lamast og rekstur fyrir­tækja lamast. Þúsundir ferða­langa verða á ver­gangi og geta ekki inn­ritað sig á hótel og þar fram eftir götunum.“

Landsmenn hömstruðu bensín

Lands­menn bjuggu sig margir fyrir verkfall og flykktust í dag og gær á bensín­stöðvar til að fylla á bíla sína og brúsa. Þórður Guðjónsson forstjóri Skeljungs segir í viðtali við Vísir að verkfallið hafi strax gríðarleg áhrif á viðskiptavini félagsins eins og bensínstöðvar, verktaka, rútufyrirtæki og flugvelli. Það styttist í að bensín klárist á fyrstu bensínstöðvunum.

N1 hefur þegar lokað þremur bensínstöðvum: við Skógarlind í Kópavogi, Vallarheiði í Njarðvík og á Flúðum. Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, segir í samtali við Vísir að fyrirtækið bíði svara frá Eflingu um hvernig þjónusta eigi þá sem hafa fengið undanþágubeiðnir samþykktar.

„Til að mynda björgunarsveitir, lögregla og slíkir aðilar eru komnir með undanþágur en við viljum hafa skýra línu frá Eflingu hvernig við eigum svo að þjónusta þá. Því auðvitað þarf að koma eldsneyti á tankana okkar og við þurfum svo að geta afgreitt þá. Þannig það þarf að fínstilla þetta en það eru allir örugglega að reyna að gera sitt besta í þessu og brjálað að gera hjá öllum, þannig þetta vonandi skýrist í dag.“

Segist hann vona að verkfallið standi ekki í langan tíma, en á sama tíma búast við að það geti varað í einhvern tíma.

Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics, fiskeldisfyrirtækis á Suðurnesjum, óttast milljarðatap. Í samtali við RÚV kemur fram að vegna verkfallsins verður mögulega ekki hægt að flytja súrefnistanka að eldistönkum og eldisfiskar gætu því drepist. Efling hefur ekki svarað undanþágubeiðni fagfélags um fiskeldi.

„Ársveltan hjá okkur er í kringum fjórir milljarðar, og ef við missum þetta niður þá er ófyrirséð um áhrif bara næstu árin.“

Samþykktu 70 undanþágubeiðnir

Á þriðjudagskvöld samþykkti undanþágunefnd vegna verkfallsaðgerða Eflingar 70 ótímabundnar undanþágur til allra aðila sem sóttu um undanþágur vegna almannaöryggis. Meðal þeirra sem fengu undanþágur eru Ríkislögreglustjóri, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Rauði krossinn, Strætó, Ríkisútvarpið og vetrarþjónusta Vegagerðarinnar. Þremur beiðnum var hafnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu