„Ef svo fer fram sem horfir munu átök, morð og gengjastríð verða hluti af þjóðfélagi okkar. Þróunin er hafin á höfuðborgarsvæðinu. Líklegast er að brátt muni sams konar þróun verða á þéttbýlustu svæðunum á suðvesturhorni landsins, en ná að lokum til alls landsins,“ segir Halldór Árnason í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Halldór er umhverfis-, efna- og hagfræðingur. Hann er jafnframt þýðandi bókar sem hefur beintengingu við efni greinar hans: „Að hundelta ópið – upphaf og endir fíknistríðsins,“ eftir Johann Hari.
Að mati Halldórs er hér að eiga sér stað þróun sem er sambærileg við það sem hefur gerst víða í löndum í kringum okkur, þar sem áhrif skipulagðrar glæpastarfsemi verða sífellt meiri. Halldór telur rótina að vandanum vera ranga nálgun á fíkniefnavandann og hvetur hann til þess að Ísland segi sig úr stríðinu gegn fíkniefnum og taki upp nálgun skaðaminnkunar. Halldór segir um, að hans mati, stigversnandi ástand í höfuðborginni:
„Aðdragandi að núverandi ástandi er vel þekktur frá öðrum löndum. Ein birtingarmyndin hér á landi er, að nýlega var karlmaður skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Reykjavík. Önnur er, að lögreglan fæst nú við afleiðingar þess, að tveimur gengjum ungra karla laust saman og börðust með hnífa að vopni inni á bar við Bankastræti. Hér eru einungis tvö dæmi tilgreind, en dæmi um ofbeldi af sama toga eru fjölmörg. Auðvelt er að geta sér til um, að baráttan um yfirráð á fíkniefnamarkaðnum hér á landi með tilheyrandi ofbeldi muni fara harðnandi og vaxa líkt og í öllum öðrum löndum, þar sem stjórnvöld heyja stríð gegn fíkniefnum.
Ógn og ofbeldi með tilheyrandi ótta er að grafa um sig í hugum landsmanna. Reykjavík er ekki lengur sá griðastaður sem hún var í hugum okkar. Óttinn er að grafa um sig. Erlend sendiráð vöruðu landa sína við að fara niður í miðbæ Reykjavíkur, eftir hnífabardaga fíkniefnagengjanna.“
Halldór bendir á að þessi þróun ógni ferðaiðnaðinum en orsakanna sé að leita í þeirri nálgun að fara í stríð við fíkniefnaneytendur. Halldór skrifar:
„Þegar fíkniefnabanninu var komið á í Bandaríkjunum með tilheyrandi stríðsyfirlýsingum, var þar þá og er nú í vaxandi mæli á Íslandi, fjöldi manna sem liðu, af ýmsum ástæðum, kvalir á sálu sinni. Sömu aðstæður eru að myndast í okkar samfélagi. Af umræðum um skólamál hér á landi, sjáum við að vaxandi hluta ungmenna líður illa og þjáist af hugarvíli.
Eðlilegt er að stjórnvöld bregðist við því ástandi, sem nú er uppi í þessum efnum. Til þess liggja ríkar samfélagslegar og þjóðhagslegar ástæður. Við þurfum meira á að halda yfirvegun og visku, en að herða baráttu okkar í anda fíknistríðsins, á grundvelli hugmynda, sem algerlega hafa gengið sér til húðar.“
Halldór segir viðbrögð Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við gengjastríði sem geisað hefur í borginni vera fyrirsjáanleg og röng, en Jón boðar aukna hörku gegn skipulagðri glæpastarfsemi. „Dómsmálaráðherra virðist ekki átta sig á, að það er baráttan um markaðsyfirráð, sem stýrir gengjamynduninni, sem við höfum orðið vitni að. Á bak við gengin standa, ef að líkum lætur menn, sem vilja ná yfirráðum á ólöglegum markaði, sem er þeim afar arðbær. Menn sem senda aðra fyrir sig til ofbeldisverka inn á bari eða út á götu. Þessi þróun líkist framvindu sem þekkt er í löndunum allt í kringum okkur, en ekki bara þar heldur um allan heim. Þökk sé fíknistríðinu.“
Halldóri líst mun betur á skaðaminnkunarleiðina sem t.d. Árni Tómas Ragnarsson læknir hefur mælt fyrir. Hann og fleiri læknar hafa gefið fíklum morfín sem gerir viðkomandi kleift að sækja sér hreint efni af mátulegum styrkleika.
Halldór segir að Ísland verði að draga sig út úr stríðinu gegn fíkniefnum, alþjóðlegu átaki sem Bandaríkjamenn hafa leitt allt frá yfirlýsingu sem gefin var í forsetatið Nixons árið 1971. Vægt er til orða tekið að efasemdir gagnvart þessari stefnu hafi farið vaxandi. Halldór segir að við verðum að grípa til eftirfarandi ráðstafana til að bregðast við þeirri óheillaþróun sem hann telur vera að eiga sér stað hér á landi:
„Draga Ísland út úr fíknistríðinu (War on Drugs).
Taka viðskipti með fíkniefni úr höndum glæpamanna, með því að fela heilbrigðiskerfinu að sjá þeim sem líða sálarkvalir fyrir nauðsynlegum lyfjum.
Koma upp aðstöðu og nauðsynlegri þekkingu á heilsugæslustöðvum til að taka á móti fólki sem líður sálarkvalir og veita þeim nauðsynlega þjónustu og aðhlynningu.
Veita fyrrum fíklum, sem náð hafa jafnvægi með hjálp heilbrigðiskerfisins félagslega aðstoð til að lifa eðlilegu lífi og verða nýtir þegnar í sátt við sjálfa sig og þjóðfélagið.“
Halldór segir að ofannefndar aðgerðir verði ódýrari og mun árangursríkari en núverandi stefna.
Sjá nánar á vef Fréttablaðsins