fbpx
Laugardagur 24.september 2022
Fréttir

Viðtal: Meira vesen að ferðast til Íslands en allra annarra Evrópulanda segir Jóhannes – Varar við tug milljarða kostnaði vegna takmarkana á landamærum

Heimir Hannesson
Föstudaginn 22. október 2021 11:30

Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri SAF. mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir tíma til kominn að ráðast í afléttingar á landamærunum. Takmarkanir á ferðafrelsi um íslensk landamæri séu nú aftur orðin þau hörðustu í Evrópu og að kostnaðurinn við þær sé meiri en mörgum grunar. Hann geti, samkvæmt mati SAF, svo til þurrkað út efnahagslegan ábata komandi loðnuvertíðar, fái takmarkanirnar að standa óbreyttar í allan vetur.

„Löngu er kominn tími til þess að ráðast í afléttingar á sóttvarnartakmörkunum á landamærunum,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, í samtali við blaðamann DV og lýsir yfir áhyggjum af komandi sumri verði ekki gripið til aðgerða strax.

„Við erum til dæmis að benda á hversu mikilvægt það er að vera með reglur um ferðalög bólusetts fólks á svipuðum stað og nágrannalöndin okkar,“ segir Jóhannes. „Eins og staðan er í dag er Ísland í enn eitt skiptið komið með hörðustu takmarkanir á bólusetta farþega. Öll EES löndin eru komin með algjörar undanþágur fyrir bólusetta farþega, nema Ísland sem heldur uppi kröfum um aukapróf.“

Áhrif takmarkana snertir ferðaþjónustuna alla

„Svo erum við að sjá fréttir eins og þær sem Túristi birti í fyrradag, þar sem tilkynnt var að SAS væri hætt að fljúga til Íslands frá Noregi og vísuðu beint til þessara auka takmarkana á Íslandi,“ segir Jóhannes og bendir á að áhrif takmarkananna er ekki lengur einhver abstrakt hugmynd. Ferðaþjónustan öll sér þetta og finnur fyrir þessu á eigin skinni. „SAS sér ekki einu sinni hag sinn í því að fljúga í gegnum Ísland til Bandaríkjanna í samvinnu við Icelandair eins og það hefur gert,“ bætir hann við.

Jóhannes segir augljóst að þegar það er orðið meira vesen að ferðast til Íslands en allra annarra Evrópulanda hefur það augljóslega áhrif á gang ferðaþjónustunnar og þjóðarbúið allt. „Icelandair finnur fyrir þessu. Ég heyri frá Isavia að upplýsingar sem þau fá til sín frá erlendum flugfélögum benda til þess að nýtingin yrði meiri ef ekki væri fyrir þessar aukatakmarkanir. Þetta eru bara bein skilaboð frá flugfélögum sem eru að standa í farþegaflutningum til og frá Íslandi. Ef þetta heldur svona áfram, og þessum takmörkunum viðhaldið, þá mun það hafa neikvæð áhrif á eftirspurn, neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna og orðspor Íslands,“ segir Jóhannes og bendir á að hin hraða viðspyrna ferðaþjónustunnar sé síður en svo sjálfgefin.

100 þúsund ferðamenn á við þriðjung af loðnuvertíð

Aðspurður hvers lags fjármuni verið sé að tala um, bendir hann á komandi loðnuvertíð. „Nú er því fagnað að stærsta loðnuvertíð í tuttugu ár sé fram undan. Af hverju er verið að fagna því? Jú, það er vegna þess að hlutur Íslands í þessum loðnukvóta getur orðið á milli 80-100 milljarðar króna, fáist fyrir afurðirnar þokkalegt verð á erlendum mörkuðum. Þetta eru þá gjaldeyristekjur inn í landið.“

„Til samanburðar,“ segir hann enn fremur, „getum við ályktað út frá þeim tölum sem eru núna í gangi, ef að svona landamæratakmarkanir verða til þess að það koma eitt hundrað þúsund færri ferðamenn til landsins en hefðu gert, á meðan á þessari loðnuvertíð stendur, þá mun tapið vegna aðgerðanna nema um 30 milljörðum króna. Það er þriðjungur af þessari loðnuvertíð sem allir eru svo ánægðir með.“

Jóhannes bendir þá á að það þurfi ekki mikið að reikna til þess að sjá að ef að ferðamannafjöldi til landsins minnkar úr milljón og niður í 700 þúsund, vegna meiri eftirspurnar eftir öðrum áfangastöðum vegna takmarkana á Íslandi, þá er öll loðnuvertíðin horfin.

„Það sem ég vil segja með þessu, er að stjórnmálamenn verða að átta sig á því, og vera með það alveg meðvitað, að ákvörðun um að halda áfram takmörkunum í allan vetur á landamærunum mun kosta tugi milljarða. Það er bara staðreynd. Það eru bara tug milljarða kostnaður sem væri alveg hægt að nota í aðra þætti hins opinbera. Það væri til dæmis hægt að setja þá peninga í að laga heilbrigðiskerfið.“

Rök fyrir afléttingum innanlands eiga jafnt við á landamærunum

Mikil og vaxandi pressa hefur verið á íslensk heilbrigðis- og sóttvarnaryfirvöld að aflétta takmörkunum á daglegu lífi fólks, eða svokölluðum innanlandstakmörkunum. Hins vegar hefur sá þrýstingur frá almenningi, óneitanlega, snert minna á takmörkunum á landamærunum.

Jóhannes bendir hins vegar á að öll þau sömu rök og tekin voru fram í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um afléttingar hér innanlands, til dæmis um meðalhófsreglu og velgengni í bólusetningarátaki ríkisins, eiga við um afléttingar á landamærunum líka. „Það hefur gengið vel við að glíma við þau smit sem hafa komið upp hér á landi. Reynsla síðustu mánaða bæði hérlendis og í nágrannalöndunum okkar hefur sýnt fram á að hún hefur verið góð. Á þeim grundvelli hafa til dæmis Norðurlöndin, og aðrar nágranna þjóðir okkar, verið að afnema landamærahindranir fyrir fullbólusett fólk. Við teljum alveg skýrt að þau sömu rök eigi við í þessu,“ segir Jóhannes.

En er ekki langt í næsta sumar?

„Nei,“ segir Jóhannes. „Bókunartímabil ferðaskrifstofa fyrir næsta sumar er bara að hefjast núna,“ útskýrir hann. „Bókunartímabil einstaklinga hefst svona um áramótin. Flugfélögin fylgjast svo vel með og skipuleggja sínar flugáætlanir fyrir næsta sumar og þar næsta vetur út frá þeirri eftirspurn sem þær finna fyrir í dag.“

„Ríkið verður einfaldlega að fara að senda þau skilaboð út til þessa einstaklinga og fyrirtækja, að Ísland sé opið,“ segir Jóhannes að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Handteknir fyrir mótmæli í Rússlandi og skráðir beint í herinn

Handteknir fyrir mótmæli í Rússlandi og skráðir beint í herinn
Fréttir
Í gær

Málfríður sendir út neyðarkall eftir bíræfinn þjófnað – „Stórtjón fyrir mig, einstæð móðir með lítið milli handanna“

Málfríður sendir út neyðarkall eftir bíræfinn þjófnað – „Stórtjón fyrir mig, einstæð móðir með lítið milli handanna“
Fréttir
Í gær

Ný Fréttavakt: Rannsóknin á geysiviðkvæmu stigi. Æðstu stofnanir hugsanleg skotmörk

Ný Fréttavakt: Rannsóknin á geysiviðkvæmu stigi. Æðstu stofnanir hugsanleg skotmörk
Fréttir
Í gær

Ný rannsókn Stígamóta kynnt – Helmingur brotaþola vændis á örorku, í endurhæfingu eða veikar

Ný rannsókn Stígamóta kynnt – Helmingur brotaþola vændis á örorku, í endurhæfingu eða veikar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Á yfir höfði sér bann frá eigin liði út af kynferðislegu sambandi við starfsmann

Á yfir höfði sér bann frá eigin liði út af kynferðislegu sambandi við starfsmann
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínumenn fagna frelsi hetja sinna – Dauðadæmdir Bretar fá að fara heim til sín

Úkraínumenn fagna frelsi hetja sinna – Dauðadæmdir Bretar fá að fara heim til sín