fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Eymundur hefur fylgt nokkrum til grafar: „Félagsfælni er dauðans alvara og ekkert til að leika sér með“

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 24. febrúar 2020 13:43

Eymundur Eymundsson. Skjáskot af vef Vísis.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eymundur Eymundsson, ráðgjafi og félagsliði, fjallar um félagsfælni í pistli sínum sem birtur er á vef Vísis. Þar segist hann meðal annars hafa þurft að fylgja nokkrum til grafar þar sem félagsfælni réði förinni. Eymundur hefur opnað sig um eigin baráttu áður, meðal annars í viðtali við DV. Í pistli sínum á vef Vísis segist hann vonast til þess að umfjöllun um félagsfælni verði meira áberandi og vill hann auka þekkingu, viðurkenningu og virðingu fyrir sjúkdómnum.

„Ég hef þurft að fylgja nokkrum til grafar“

Eymundur kveðst hafa verið 38 ára þegar hann fékk fræðslu um kvíða, félagsfælni og þunglyndi. „Það var mikil uppgvötun og mörg tár sem féllu þegar ég sá hvað hafði stjórnað mínu lífi frá 12 ára aldri. Að sjá að það voru raunverulegar ástæður fyrir mínum feluleik gaf mér von. Von sem ég ætlaði að vinna með til að geta verið þáttakandi í lífinu í stað þess að stjórnast af félagsfælni.“

Eymundur segist hafa kviðið fyrir hverjum degi vegna sjálfsvígshugsana frá 12 ára aldri. „Ég hef hinsvegar þurft að fylgja nokkrum til grafar þar sem félagsfælni réð för sem hefðu þurft hjálp í æsku. Ég var heppinn að lifa af myrkrið og einangrun sem umlykur félagsfælni ef ekkert er að gert.“

Félagsfælnin hafði mikil áhrif á líf Eymundar, sérstaklega framan af. Hann reyndi sem mest að taka ekki þátt í félagslegum viðburðum nema þegar hann stundaði íþróttir. Annars þurfti hann að vera undir áhrifum vímuefna. Hann segir að þeir sem þjást af félagsfælni eigi ekki að þurfa að skammast sín, ekki frekar en þeir sem glíma við þunglyndi, geðhvörf eða alkóhólisma.

„Í 15 ár hef ég fengið mikla hjálp frá fagfólki og stofnunum en of langt er að telja þær stofnanir upp núna. Eins hef ég fengið góða hjálp frá fólki í félagasamtökun þar sem fólk með geðröskun og fagaðilar vinna saman á jafningjargrunni.“

„Það var svo mikil skömm sem fylgdi þessu“

Eins og að framan greinir er þetta ekki í fyrsta skipti sem Eymundur opnar sig um félagsfælnina. „Það var svo mikil skömm sem fylgdi þessu. Maður hélt að maður væri eitthvað öðruvísi,“ sagði Eymundur meðal annars í viðtalinu við DV árið 2016.

Í pistlinum, sem má lesa í heild sinni hér, segir Eymundur að hann hafi verið opinn fyrir hjálpinnni og náð að byggja upp líf sitt með því að vinna með styrkleikana sína. „Styrkleika sem voru alltaf til staðar sem félagsfælni hélt niðri og lífsreynsla hvers og eins eru verðmæti fyrir samfélagið.“

Hann segist vera þakklátur fyrir að geta deilt sinni reynslu af félagsfælninni til góðs í dag. „Ungmenni og fullorðnir sem ég hef verið að fræða síðustu 10 ár virðast ekki vita hvað félagsfælni er fyrr en að fyrirlestri loknum. Ungmenni sem fullorðnir eru þakklát fyrir að sjá einstakling sem hefur persónulega reynslu af félagsfælni og sjá hvað hægt er að gera með að takast á við sjálfan sig.“

„Félagsfælni er dauðans alvara og ekkert til að leika sér með“

Eymundur undirstrikar mikilvægi þess að fræða fólk um félagsfælnina en hann segir að það þurfi að bæta skólakerfið og fjölga fagmenntuðu fólki á þessum sviðum. „Vonandi verður framtíð barna okkar á þá leið að sjálfsagt sé að fá hjálp við því sálræna eins og við því líkamlega. Að það þurfi ekki að skammast sín fyrir að fá hjálp til að takast á við lífið. Hjálp sem hjálpar um leið aðstandendum og minnkar afleiðingar sem skapar verðmæti samfélaginu til heilla. Vona að þið séuð nær um félagsfælni og mikilvægi þess að fá hjálp strax í æsku. Félagsfælni er dauðans alvara og ekkert til að leika sér með.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga