fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Skagarokk strandaði á skeri

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 30. mars 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skagarokk var í senn mesta ævintýri íslenskrar tónlistar og ein harkalegasta brotlendingin. Nokkrir bæjarbúar á Akranesi tóku sig saman og pöntuðu tvær af stærstu rokksveitum veraldar til að koma og spila í íþróttahúsinu í tilefni af afmæli bæjarins. Tónleikarnir ollu titringi, bæði hjá aðdáendum og guðhræddum efasemdarmönnum.

Sigurður Sverrisson
Talsmaður tónleikahaldara.

Hróarskelda Íslands

Í byrjun árs 1992 var tilkynnt að tvennir stórir tónleikar skyldu haldnir á Akranesi um haustið í tilefni af afmæli bæjarins. Þá voru fimmtíu ár síðan Ytri-Akraneshreppur fékk kaupstaðarréttindi. Ekki dugði að panta Sálina hans Jóns míns eða Stuðmenn til þess að fagna slíkum tímamótum. Nei, nokkrar af stærstu rokkstjörnum veraldar skyldu koma spila í íþróttahúsinu helgina 25.–26. september þetta ár; skosku rokkararnir Jethro Tull á fyrra kvöldinu og myrkraprinsinn sjálfur, Ozzy Osbourne, á því seinna.

Sigurður Sverrisson, ritstjóri Skagablaðsins, var forsvarsmaður þeirra sem að tónleikunum stóðu. En auk hans lögðu tveir aðrir ofurhugar, tvenn félagasamtök og þrjú fyrirtæki í bænum út fyrir tónleikunum. Að flytja inn tónlistaratriði til Íslands er ávallt fjárhagsleg áhætta en tónleikahaldararnir voru búnir að reikna út að þeir þyrftu að fá 3.000 gesti í heildina til þess að koma út á sléttu. Á hvort kvöldið gátu þeir selt 2.500 miða, á 3.200 krónur í forsölu eða 3.800 á staðnum.

Strax var farið að tala um að gera Skagarokk að árlegum viðburði og hugtakinu „Hróarskelda Íslands“ hent fram. Einnig var gantast með að Reykvíkingar öfunduðust út í Skagamenn fyrir að geta haldið tónleikana.

 

Gunnar Þorsteinsson
Forstöðumaður Krossins.

Beðið fyrir vesalingum

Strax heyrðust mótbárur frá guðhræddum. Gunnari Þorsteinssyni, forstöðumanni Krossins, leist illa á að Ozzy kæmi til landsins enda væri hann hvað verstur af óguðlegum þungarokkurum.

„Við munum biðja Guð um að hreinsa þessa óværu af landinu sem allra fyrst og hjálpa þessum vesalingum á Akranesi, sem eru að kalla þetta yfir sjálfa sig og æskulýðinn þar,“ sagði Gunnar í samtali við Tímann þann 30. janúar 1992.

„Ozzy Osbourne er einn af forvígismönnum illskunnar í tónlistinni og hefur verið faðir þessara djöflatónlistarmanna meira og minna, enda hefur hann verið sýktur bæði af lyfjum og djöflum alla sína tíð. Þetta er maður kominn fast að fimmtugu og á alveg ótrúlegan feril að baki. Við munum biðja fyrir Akurnesingum á okkar bænastundum hér í Krossinum, því þetta er ljót sending fyrir þetta góða bæjarfélag.“

Var þetta ekki í fyrsta sinn sem meðlimir Krossins báðu fyrir tónleikagestum á þennan hátt. Töldu þeir sig hafa verið bænheyrða þegar tónleikar Whitesnake í Reiðhöllinni árið 1990 og tónleikar Poison og Quireboys í Kaplakrika mistókust.

Sigurður svaraði Gunnari og sagðist ekki óttast fyrirbænirnar.

„Mér finnst það slæmt ef menn ætla að biðja á þann veg að aðrir skaðist á því,“ sagði hann. „Spurningin er hvort frelsunin er þá meira virði en tjónið sem af því getur hlotist, því er spurning hvort þetta fólk er skaðabótaskylt.“

Sagði hann að þungarokkarar væru ekki útsendarar djöfulsins og að Ozzy hefði tekið sér tak undanfarin ár. Væri hættur í eiturlyfjum og orðin ráðsettari.

Ian Anderson
Forsprakki Jethro Tull.

Handklæði og pottaplöntur

Hvort sem það var vegna fyrirbæna Krossara eður ei, þá fór svo að Ozzy komst ekki á Skagarokk. Í staðinn var ákveðið að fá hans gömlu félaga úr Black Sabbath til að fylla í skarðið. Þá voru eftir Tony Iommi og Geezer Butler úr upprunalegu hljómsveitinni og sjálfur Ronnie James Dio hafði tekið við hljóðnemanum.

Þann 25. apríl sagði Sigurður við DV að forsalan hefði farið vel af stað. Næstum allir miðar í sæti á Jethro Tull hefðu klárast á fyrsta degi. Áhuginn á tónleikum Black Sabbath væri einnig mikill þó að ekki hefði selst jafn vel á þá. Sigurður sagðist hafa tekið við miðapöntun frá manni á Húsavík sem var svo spenntur að hann hefði komið gangandi og það þó að miðinn myndi kosta 15 þúsund krónur.

Um sumarið byrjaði spennan að magnast. Fréttir bárust af því að meðlimir Jethro Tull hefðu beðið um alls konar skringilega hluti, eins og rokkstjörnur gera oft. Vitaskuld báðu þeir um ákveðinn fjölda handklæða, öll ný en þvegin einu sinni. Þá þurftu tíu tveggja metra háar pottaplöntur að vera til staðar og hringlaga borð með fjórum stólum að hætti franskra kaffihúsa. Einnig bárust fregnir af því að meðlimir Black Sabbath, líkt og Ozzy sjálfur, væru í stanslausum barningi við ameríska sértrúarsöfnuði.

Black Sabbath
Aðeins 250 miðar seldust.

Mikið tap

Hin mosfellska rokksveit Gildran var fengin til að hita upp fyrir Jethro Tull. Þeir voru orðnir alvanir enda höfðu þeir hitað upp fyrir Uriah Heep, Status Quo og Nazareth. Um tíma var ætlunin að breska sveitin UFO hitaði upp fyrir Black Sabbath. En svo fór að hinir norsku Artch með Eirík Hauksson í fararbroddi sáu um það.

Loks kom að tónleikahelginni. Tónleikar Jethro Tull tókust mjög vel og mikil stemning. 1.500 miðar seldust, sem átti að vera nóg til að halda tónleikunum á pari, það er ef það sama tækist seinna kvöldið. En á Black Sabbath mættu einungis 250 manns og margir á útsölumiðum. Ekkert var hins vegar upp á hljómsveitina sjálfa að klaga.

Um viku eftir tónleikana greindi Siguður frá því að umtalsvert tap hefði verið á tónleikunum, 2,5 milljónir króna þegar allt var tekið til. Var þetta umtalsvert meira tap en tónleikahaldarana hefði getað órað fyrir. Kom þá í ljós að einnig hefði orðið tap á hljómleikum Jethro Tull.

Jagger eða McCartney

Skömmu eftir að tapið af Skagarokki var kunngert fóru að heyrast kvittir um að tónleikahaldararnir ætluðu að reyna að endurheimta tapið með öðrum tónleikum. Þá ekki þungarokkstónleikum á Akranesi heldur stórtónleikum í Reykjavík.

Þann 15. október var greint frá því í Pressunni að verið væri að hugleiða „stórt nafn“ en Sigurður vildi ekki segja um hvern væri að ræða. Áreiðanlegar heimildir blaðsins voru þær að það væri annaðhvort Mick Jagger eða Paul McCartney. Fyrst var farið á fjörurnar við Jagger sem var að gefa út sólóplötu. Síðan McCartney.

Af þessu varð hins vegar ekki og aðstandendur Skagarokks sátu uppi með tapið, það er að segja allir nema Sundfélag Akraness.

Sundfélaginu bjargað

Tæpu ári eftir Skagarokk, í júní árið 1993, sagði Sigurður við DV að ævintýrið hefði verið tilraun sem mistókst, lottó sem ekki gekk upp. Þá var ljóst að heildartapið var átta milljónir. Aðstandendurnir sóttu um styrk hjá bænum en fengu ekki. Sundfélagið hafi hins vegar fengið styrk upp á sömu upphæð og þeir lögðu undir sem áhættufé. Sá styrkur var merktur sem tækjakaupastyrkur.

„Þetta er of mikið tap fyrir venjulegar sálir og því halda þessir aðilar ekki aftur rokkhátíð á Akranesi á þessari öld,“ sagði Sigurður. Kannski voru Krossarar því bænheyrðir eftir allt saman.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United

Allir þrír leikmenn klárir fyrir United
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum
Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Verk og vit sett með pomp og prakt

Verk og vit sett með pomp og prakt
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“

Baldur um ófrægingarherferð gegn sér: „Þetta hefur engin áhrif á okkur Felix“