fbpx
Mánudagur 27.maí 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Guðlaugur sá ástandið með eigin augum

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 4. nóvember 2018 23:00

Guðlaugur Guðmundsson Keyrði leigubíl árin 1942 til 1960.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðlaugur Guðmundsson var kaupmaður í Reykjavík og vakti nokkra athygli þegar hann fór á miðjum aldri að skrifa bækur. Sú síðasta, Ástir í aftursæti, frá árinu 1978, þótti nokkuð djörf enda lýsti hún reynslu hans sem leigubílstjóri hjá Heklu á stríðsárunum. Á þeim tíma lenti hann í ýmsum spaugilegum uppákomum en sá einnig skuggahliðar ástandsins svokallaða. Bókin fékk viðurkenningu frá útgáfunni Erni og Örlygi sem hafði kallað eftir sögum frá stríðsárunum.

Guðlaugur keypti sér Ford-bíl árið 1942, 28 ára gamall, og hóf þá að keyra fyrir leigubílastöðina Heklu, en hann hafði áður unnið í Bretavinnunni. Í minningum frá þessum tíma segir hann:

„Undir stýri leigubílsins kynntist ég nýjum hliðum mannlífsins. Aftursæti bílsins var af mörgum álitið vera einangraður heimur þar sem allt væri hægt að gera og segja. Piltur og stúlka hikuðu ekki við að fara í ástarleiki og aðrir opnuðu þar hug sinn allan. Þetta fólk virtist líta á ökumanninn sem hluta af bílnum.“

 

Sætisbakið hreyfðist taktfast

Eitt sinn kom lágvaxinn maður, dökkur yfirlitum og með vel hirt yfirvaraskegg á leigubílastöðina. Bað hann Guðlaug að aka sér að Elliðaánum, rétt við Rafstöðina. Myrkur var úti og maðurinn bað Guðlaug að stöðva og blikka ljósunum tvisvar. Kom þá út úr húminu ung og vel klædd stúlka og vísaði maðurinn henni inn í bílinn. Því næst var Guðlaugur beðinn að aka upp að Kolviðarhóli vestan Hellisheiðar.

Vegurinn var holóttur og slæmur og lýsing engin. Mátti Guðlaugur því hafa sig allan við aksturinn en farþegarnir sátu hins vegar og þögðu, líkt þeir væru feimnir. Dökk óveðursský byrgðu fyrir tunglsljósið sem skein þó endrum og eins í gegn. „Mér fannst ég vera einn og hálfgerður óhugnaður settist að mér,“ ritaði Guðlaugur. „Hvað er fólkið að vilja upp að Kolviðarhóli í þessu veðri, og hvaða fólk er þetta eiginlega? Það talar ekkert saman.“

Á Sandskeiði var vegurinn verstur og gusurnar gengu yfir bílinn. Skyndilega fann hann fyrir því að sætisbak hans var á hreyfingu og fyrsta hugsunin var að það hlyti að vera draugagangur. Þegar hann leit í spegilinn var fólkið horfið en sætið hélt áfram taktföstum hreyfingum.

Þá sá hann nakinn hvítan fót og sneri sér við og sá stúlkuna liggja á bakinu. „Yfir andlitinu hvíldi friður og ró, ekki ró dauðans, heldur hins fullkomna unaðar. Og nú sá ég manninn og mér létti. Hann var greinilega af holdi og blóði, því að þarna lá hann í fangi konunnar og hvítur rassinn sneri upp og gekk í takt við sætisbakið.“ Því næst keyrðu þau í bæinn aftur og talaðist fólkið ekki við.

Ford, árgerð 1935
Fólk stundaði mök þó Guðlaugur væri í bílnum.

Gat ekki verið kvenmannslaus

Guðlaugur keyrði oftsinnis bandaríska hermenn og þær stúlkur sem þeir voru í tygjum við. Ein 19 ára stúlka samdi við hann um að lána henni bílinn tvö kvöld í viku. Hún sagðist vera trúlofuð 25 ára gömlum hermanni en gæti ekki verið heima þar sem faðir hennar þyldi ekki hermenn. Bað stúlkan Guðlaug sérstaklega að hafa rúðurnar ekki hreinar.

Sótti hann hermanninn í kampinn og lagði bílnum við timburstafla á svæði sem líktist helst ruslahaugi. Læsti hann bílnum og fékk sér göngutúr. Gekk þetta svona heilan vetur, frá hausti fram í apríl. Einu sinni, tvisvar og jafnvel þrisvar í viku, frá klukkan 21 til 23. Á meðan vann hann við uppskipun eða fór í bíó. Eftir fundina skilaði Guðlaugur stúlkunni á Laugaveg og hermanninum í kampinn.

Í apríl var hann sendur á vígstöðvarnar. Þegar Guðlaugur var búinn að skila stúlkunni af síðasta fundinum opnaði hermaðurinn sig fyrir honum. Viðurkenndi hann að í upphafi hafi hann einungis verið að nota stúlkuna, „því kvenmannslaus gat hann ekki verið.“ En ástin hefði þó kviknað með tímanum.

Vandinn væri þó stærri því að í Ameríku ætti hann eiginkonu og tvö börn. Sýndi hann Guðlaugi ljósmynd af fjölskyldu sinni, en þorði aldrei að segja stúlkunni frá þessu. Hafði hann logið því að henni að eftir stríðið myndu þau setja upp hringana og flytja til Ameríku.

„Góðum stúlkum, íslenskum nægja ekki holdleg mök, heldur vilja þær mann allan. Hvað á ég að gera?“ sagði dátinn. Sammæltust þeir um að láta hana halda að dátinn hefði fallið í átökum.

Hitti Guðlaugur hana aftur löngu síðar. „Nú gekk hún til dyra með manninum sínum og virti mig ekki viðlits framar, en augu hennar hafa þó ekki gleymt.“

 

Skuggalegt fólk

Eitt vorkvöld var Guðlaugur kallaður til að Njarðargötu og beðinn um að flauta ekki. Eftir nokkra bið kom maður með barðahatt varlega út úr húsi og gaf honum bendingar um að koma. Út um dyrnar komu svo kona á miðjum aldri leiðandi unga stúlku, 16 til 18 ára, tætingslega og ógreidda, í rósóttum kjól og fráhnepptri kápu. Var hún öll stíf og virtist kunna ljósbirtu illa.

Sú eldri reyndi að hugga hana en stúlkan datt að brjósti hennar og grét. Hún virtist eiga erfitt með gang þegar hún gekk að leigubílnum. Settust þær í aftursætið og maðurinn í framsætið. Guðlaugur fann að eitthvað mikið var að. „Raun var að horfa í andlit hennar, sorgmætt og kvíðið.“

Guðlaugur keyrði af stað en þegar hann keyrði yfir holu emjaði stúlkan og greip í skaut sér. „Guð, hvað ég er aum. Karlmenn eru rónar, hundar, svín. Þeir hafa hálfdrepið mig. Ég finn svo mikið til.“ Eldri konan sagði þá: „Vertu róleg, þetta jafnar sig og kemur upp í vana“ en stúlkan sagði: „Ég held ég sé rifin, þeir ætluðu alveg að drepa mig.“ Titraði hún af reiði og grét með ekkasogum.

Guðlaug fór að gruna að fólkið væri að gera stúlkuna út og fannst hann meðsekur með akstrinum. Þegar hann spurði hvort stúlkan væri veik greip konan fyrir munn hennar og maðurinn sagði með skipunartón: „Hugsaðu um keyrsluna.“ Varð Guðlaugur þá reiður og sagðist ekki einu sinni vita hvert þau væru að fara. Bað maðurinn hann þá að stoppa á Grettisgötunni og konurnar fóru út. Maðurinn fór út á Skarphéðinsgötu og spurði þá um gjaldið. Guðlaugur setti upp fjórfalt gjald til að ögra honum en maðurinn borgaði mótbárulaust. Guðlaugur kallaði síðan á eftir honum: „Þú ættir að skammast þín.“

 

Seldi sig fyrir brauð

Hótel Heklu sóttu dátarnir stíft og þar voru fjölmargar íslenskar stúlkur, barnungar sumar, að selja blíðu sína. Guðlaugur og aðrir leigubílstjórar biðu gjarnan þar fyrir utan. Ein stúlkan bjó í Vesturbænum en fór reglulega heim með Bandaríkjamanni af Vellinum. Eitt kvöldið brast hún í grát og sagði Guðlaugi sögu sína.

Hún hafði verið gift, tveggja barna móðir í ónefndu kauptúni en flutt í bæinn eins og margir. Þá hafi maður hennar lagst í drykkju og peningur heimilisins kláraðist. Kom hann oft með hermenn heim sem áttu brennivín. Þegar skuldirnar jukust og stefndi í óefni stakk hann upp á að hún legðist með hermönnum fyrir pening, það gerðu margar giftar konur. Tók hún þessu illa og slógust þau, skildu síðan í kjölfarið.

Hermennirnir héldu áfram að heimsækja heimilið. „Þeir voru bæði lagnir og ýtnir þessir hermenn þegar kvenfólk átti í hlut. Þegar allsleysið svarf að mér guggnaði ég, en þó hægt til að byrja með. Börnin voru svo tekin af mér og með þeim fór svo það sem eftir var af siðgæðinu,“ sagði hún.

Guðlaugur gerðist nú vandræðalegur og reyndi að beina talinu að veðrinu en hún hlustaði ekki á það. „Þetta var ægilegt hrun frá fallegu heimili, eiginmanni og börnum niður í þá eymd að selja líkama sinn fyrir brauð. Ó, Guð, ég hefi aðeins eina ósk, að börnin mín verði aldrei eins og ég.“ Fór hún svo út úr bílnum og inn í litla kjallarakompu sem hún leigði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Kolbeinn og Daníel tjá sig um loftlagsverkfallið – „Þau létu okkur líta út eins og hálfvita, hræsnara og aumingja“

Kolbeinn og Daníel tjá sig um loftlagsverkfallið – „Þau létu okkur líta út eins og hálfvita, hræsnara og aumingja“
Fókus
Í gær

Hatrammar nágrannaerjur: „Farðu að kúka og skilaðu tíund af því sem Rebbi refur segir“

Hatrammar nágrannaerjur: „Farðu að kúka og skilaðu tíund af því sem Rebbi refur segir“
Fókus
Fyrir 3 dögum

DV leikur sér að heitasta filternum á Snapchat – Sjáið myndirnar

DV leikur sér að heitasta filternum á Snapchat – Sjáið myndirnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

BDSM-félagið á Íslandi óskar eftir Hatara búningunum

BDSM-félagið á Íslandi óskar eftir Hatara búningunum