fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Eitrun varð Kambi að bana: „Hann var eftirlitslaus í kannski tíu til fimmtán mínútur“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 26. mars 2018 21:00

Mynd: Eydís Eyjólfsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjóla Kim Björnsdóttir og fjölskylda voru að njóta lífsins í sumarbústað í síðustu viku. Kambur, hundurinn þeirra, var með í för og fékk hann að ganga laus í kringum lóðina stutta stund sem átti eftir að verða fjölskyldunni dýrkeypt og skelfileg reynsla.

„Fimmtudagurinn í síðustu viku er síðasti dagurinn sem hann var líkur sjálfum sér. Á föstudagsmorgni vildi hann ekki morgunmatinn sinn sem er mjög óvenjulegt. Síðan byrjaði hann að kasta upp,“ segir Fjóla í viðtali sem birtist upphaflega í helgarblaði DV.

Eftirlitslaus í örskamma stund

Kambur var virkilega geðgóður og hlýðinn hundur sem fékk reglulega að ganga laus með eigendum sínum.

„Hann var eftirlitslaus í kannski tíu til fimmtán mínútur þarna á miðvikudagskvöldinu. Seint á föstudeginum gat ég fengið hann til að borða örlítið nammi, en annars borðaði hann ekkert þangað til hann dó. Við fórum með hann á laugardagsmorgni til læknis sem var óviss hvort þetta væri út af eitri sem hann hefði komist í eða vegna magapestar.“

Kambur fékk sýklalyf og vítamín hjá dýralækninum og var að auki settur í blóðprufu þar sem í ljós kom að nýrun voru ekki góð og því nokkuð ljóst að um eitrun væri að ræða.

Mynd: Eydís Eyjólfsdóttir

„Okkur var bent á að reyna að fá hann til þess að drekka vatn og soð en allt sem við gátum komið ofan í hann kom aftur upp úr honum. Eftir kvöldmat á laugardeginum kastaði hann upp þrisvar sinnum. Við höfðum miklar áhyggjur af honum og ákváðum að kalla út lækni. Hann fékk lítra af vökva í æð þá nótt og við fengum annan lítra með okkur heim. Hann var svo veikburða að það var ekkert mál fyrir okkur að tengja sjálf vökva í æðalegginn.“

Kambur svaf í gegnum allan sunnudaginn og gerði ekkert annað.

Líffærin gáfu sig fljótt

„Á mánudagsmorguninn fórum við með hann aftur upp á spítala þar sem hann fór í röntgen, blóðprufu og fékk aftur sýklalyf og vökva. Sprautað var blautmat með skuggaefni upp í hann til þess að sjá hvernig maturinn færi um meltingarveginn. Þá kom í ljós að hann stoppaði við þarmana og grunaði lækninn að einhver aðskotahlutur gæti verið fastur. Hann ákvað að skera hann upp og athuga.“

Í aðgerðinni kom í ljós að þarmar Kambs voru lamaðir og skrítnir á litinn vegna eitrunar.

„Þeim á spítalanum leist ekkert á hann og mæltu með því að við færum á neyðarvakt hjá dýralækni á meðan hann jafnaði sig eftir aðgerðina. Rétt fyrir miðnætti fékk hann að koma heim og var hann orðinn verulega veikburða. Strax á þriðjudagsmorgni fórum við aftur með hann upp á spítala þar sem hann fékk enn eina ferðina vökva og sýklalyf og var settur í röntgen og blóðprufu aftur.“

Í þetta skipti kom blóðprufan mjög illa út og greinilegt var að fleiri líffæri voru farin að gefa sig.

Mynd: Eydís Eyjólfsdóttir

„Við fengum verkjalyf frá spítalanum til þess að taka með okkur heim en á þessum tímapunkti var orðið nokkuð ljóst að hann myndi ekki ná sér. Við ákváðum að hafa opið hús fyrir vini og ættingja til þess að gefa þeim tækifæri til að kveðja Kamb. Hann var einstaklega vel liðinn og vinsæll hjá öllum í kringum okkur. Þetta var erfitt en fallegt kvöld, við vorum nokkuð ákveðin í að fara með hann á miðvikudagsmorguninn og leyfa honum að sofna endanlega.“

Um nóttina fór Kambur að væla mikið og dugðu verkjalyfin skammt.

Kambur dó þegar Fjóla var á leiðinni á spítalann

„Við hringdum í neyðarvaktina og fengum ráð. Ég fékk leyfi til þess að gefa honum öll þau verkjalyf sem ég átti og ætluð voru dýrum. Morguninn eftir vorum við mætt fyrir utan spítalann áður en hann var opnaður og okkur var hleypt fljótt inn og þar gat Kambur fengið róandi. Hann fór aftur í röntgen og blóðprufu svo við gætum verið alveg viss um stöðuna áður en við létum svæfa hann. Þá kom hann skyndilega vel út úr öllum prófum og ákveðið var að gefa honum daginn. Hann fékk vökva, sýklalyf og mat með sondu.“

Um hádegið sama dag var Kambur hins vegar orðin uppgefinn og fór að kasta öllu upp aftur.

„Ég talaði við dýralækninn í síma og við ákváðum að ég kæmi upp á spítala til hans, kveddi hann og leyfði honum að sofna. Á því korteri sem tók mig að komast á spítalann dó hann. Einkenni og blóðprufur sýndu alltaf merki um eitrun en ekki er hægt að segja til um hvaðan eða hvernig eitrið er. Við teljum líklegast að hann hafi komist í eitur í umhverfinu í kringum sumarbústaðinn. Maður veit ekki neitt og gerir ekki ráð fyrir einhverju svona alvarlegu.“

Mynd: Eydís Eyjólfsdóttir

Líklegasta orsök eitrunar Kambs er músaeitur eða baktería frá hræi.

„Ef það var hræ á svæðinu þá gæti til dæmis hafa verið baktería í því en við vitum ekkert um það. Kambur var einstaklega geðgóður hundur, hann fór með mér í vinnuna í mörg ár en ég hef starfað á sambýli fyrir fjölfatlaða. Ég ætla ekkert að skafa utan af því að þetta hefur verið skelfilegur tími. Við fórum á Dýralæknamiðstöðina í Grafarholti í öll skiptin nema þegar við þurftum að leita á neyðarvaktina og við fengum toppþjónustu frá starfsfólkinu. Þau gáfust aldrei upp, ekki einu sinni þegar við gerðum það. Kambur var algjör mömmustrákur og treysti mér ótrúlega vel, hans verður sárt saknað.“

Fjóla og fjölskylda hennar vildu greina frá sögu Kambs til að vara annað fólk við þeim hættum sem geta leynst í umhverfinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum
Hvalur sprakk í tætlur
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Truflar KR-inga ekkert að spila í Laugardalnum – „Fyrstu tveir leikirnir hafa bara verið heimaleikir“

Truflar KR-inga ekkert að spila í Laugardalnum – „Fyrstu tveir leikirnir hafa bara verið heimaleikir“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Rúnar Már mættur í ÍA

Rúnar Már mættur í ÍA
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Voru gapandi hissa yfir sjónvarpinu í vikunni – „Ég veit ekki hvað fer í gegnum hausinn á þér“

Voru gapandi hissa yfir sjónvarpinu í vikunni – „Ég veit ekki hvað fer í gegnum hausinn á þér“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Spáin fyrir Bestu deild kvenna – „Ég myndi segja að það sé eina sjokkið“

Spáin fyrir Bestu deild kvenna – „Ég myndi segja að það sé eina sjokkið“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni á blaði hjá Arsenal

Tveir leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni á blaði hjá Arsenal
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stöð 2 lækkar verð

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?

Langskotið og dauðafærið – Græðir þú pening um helgina?