fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Kamilla Einarsdóttir: „Kynlíf getur verið og er oft sprenghlægilegt, fyndið og skrýtið“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 15. maí 2019 21:00

Kamilla Einarsdóttir Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kamilla Einarsdóttir vakti töluverða athygli þegar hún gaf út sína fyrstu skáldsögu á síðasta ári, Kópavogskróníkuna. Bókin er hispurslaus og segir af ástarævintýrum móður í Kópavogi sem hún lýsir fyrir dóttur sinni. DV ræddi við Kamillu um bókina, framtíðina, veturinn á strípibúllu og þátttökuna í pólitík.

 

Kamillu leiðist ekki bækur enda hefur hún alla sína ævi verið í kringum þær. Faðir hennar er Einar Kárason, hinn þekkti rithöfundur, og móðir hennar, Hildur Baldursdóttir, starfar sem bókasafnsfræðingur. Sjálf starfar Kamilla á Landsbókasafninu sem bókavörður og þar líður henni mjög vel. Kamilla segist hafa verið að skrifa síðan hún man eftir sér en ekki fyrr en nýlega með það að markmiði að gefa út bók.

„Ég hafði áður tekið þátt í safnriti um ástarsögur kvenna og einnig skrifað töluvert á samfélagsmiðlum. Einnig hafði ég nefnt þennan möguleika í samtölum við fólk. Þeir hjá Bjarti/Veröld höfðu samband við mig og spurðu hvort ég væri til í að reyna, og ég sagði já.“

Hvað vildir þú segja með bókinni?

„Aðallega vildi ég skemmta fólki. Ég var ekki með stórar meiningar eða boðskap um eitthvað samfélagslega mikilvægt. Ég sá bókina fyrir mér sem kilju sem fólk gæti geymt í rassvasanum og gripið til á ströndinni eða barnum á meðan það væri að bíða eftir vinum sínum. Að lesa hana átti að vera eins og að lenda á trúnó á fylleríi, án þvoglumælginnar auðvitað.“

Lestur hefur alltaf verið stór hluti af lífi Kamillu og áhrifin koma víða að. Hún vill þó ekki skilgreina sig sem hluta af einhverri stefnu eða kenna sig við tiltekna höfunda.

„Ég lít upp til margra höfunda en er þó ekki endilega að reyna að elta þá í stíl. En maður verður fyrir áhrifum af öllum bókum sem maður les, sem og bíómyndum, myndlist og góðu rapplagi sem maður heyrir. Ég vinn í kringum bækur og rekst á eitthvað nýtt og spennandi á hverjum einasta degi. En það er líka til ógrynni af grútleiðinlegum bókum og það er hvetjandi. Ég hugsa: Fyrst þetta var gefið út þá hlýt ég að geta gefið eitthvað út líka,“ segir Kamilla og brosir breitt.

 

Kynlíf sprenghlægilegt og skrýtið

Í mars hlaut Kamilla Rauðu hrafnsfjöðrina frá Lestrarfélaginu Krumma, en þau verðlaun eru veitt árlega fyrir forvitnilegustu kynlífslýsinguna. Í bók hennar eru ýmsar hispurslausar sögur í djarfari kantinum.

„Mér finnst bókin ekkert gróf,“ segir Kamilla. „Mér finnst einlægni heillandi og þegar sagt er frá hlutunum á hráan máta. Kynlíf getur verið og er oft sprenghlægilegt, fyndið og skrýtið. Ég sæki að einhverju leyti í eitthvað sem ég þekki sjálf, en þetta er ekki endurminningabók heldur skáldverk.“

Fannstu fyrir pressu, verandi dóttir þekkts rithöfundar?

„Nei, ég get ekki sagt það. Pabbi vissi að ég væri að fara að gefa út, en ég bað hann ekki um að lesa yfir eða neitt slíkt. Ísland er svo lítið og við erum öll svo skyld. Það er fjöldi rithöfundabarna að skrifa og kikna ekki undan pressu ættarinnar. Dóri DNA lætur það ekki stoppa sig að vera barnabarn Halldórs Laxness.“

 

Önnur bók í burðarliðnum

Kamilla ætlar ekki að láta þessa bók nægja heldur situr hún við skriftir að þeirri næstu. Hvort hún komi út fyrir næstu jól eða ekki verður að koma betur í ljós síðar.

„Það er erfitt að segja nákvæmlega hvernig hún verður, því á þessu stigi gæti hún mjög auðveldlega breyst. En eitt er víst að hún mun ekki gerast í Kópavogi,“ segir Kamilla og brosir. „Eins og er virðist hún ætla að höggva í sama knérunn og sú fyrsta.“

Er stefnan að gerast atvinnurithöfundur?

„Já, fyrir alla sem vilja skapa er það draumurinn að geta lifað af þessu. Eins og er geri ég þetta með fullri vinnu og sé auk þess um fjölskyldu. Það er ekki raunhæft að ætla að stóla á þetta strax og það græðir enginn á sölu eða upplestrum. Eina leiðin til að lifa af bókarskrifum á Íslandi er ef það verða margar bækur þýddar og svo komast á listamannalaun.“

Kamilla segist vera ánægð með viðtökurnar sem Kópavogskróníkan fékk.

„Þar sem þetta er fyrsta bókin eru þetta jafnframt bestu viðbrögðin sem ég hef fengið,“ segir hún hæðnislega. „En svona án gríns þá er ég mjög ánægð. Ég passaði mig að vera ekki með of miklar væntingar og átti alveg eins von á að hún hyrfi í flóðið.“

 

Löngun í danskan leikskólamat

Kamilla er fertug að aldri, fædd í Reykjavík árið 1979 og alin upp í Hlíðahverfinu. Önnur í röðinni af fjórum systrum. Til fjögurra ára aldurs bjó hún þó í Danmörku en man lítið eftir því.

„Það er svo undarlegt að stundum fæ ég einhverja löngun í danskan leikskólamat. Hrísgrjónagraut með kanilsykri og smjörklípu út í. Þetta er stórskrýtið og sennilega eitthvað djúpt og órannsakanlegt í mér,“ segir Kamilla og hlær.

Var þetta menningarheimili?

„Þetta var venjulegt millistéttarheimili. Eru ekki öll íslensk heimili menningarleg?“

En þú sem barn og unglingur?

„Ég sjálf var hvatvís sem krakki og fannst ekkert alltaf gaman í skólanum. Ég gekk í Hlíðaskóla og svo Menntaskólann í Hamrahlíð. Þegar ég var átján ára fór mér að finnast óbærilega leiðinlegt í skólanum og hætti. Það var einhver uppreisn í mér og ég vildi gera eitthvað sem foreldrum mínum var í nöp við. Þá fór ég að vinna á strípibúllunni Vegas, foreldrum mínum til mikillar skemmtunar og ánægju, við að selja inn og aðstoða á barnum.“

 

Veturinn á Vegas

Á þessum árum í kringum aldamótin var að ganga yfir mikil kynlífs- og klámvæðing í íslensku samfélagi. Erótískar myndir voru sýndar í sjónvarpinu, Bleikt og blátt seldist eins og heitar lummur, kynlífshjálpartækjabúðir spruttu upp og samanlagt voru sjö strípistaðir á höfuðborgarsvæðinu og þrír á landsbyggðinni.

„Þetta var allt annað en í dag. Venjuleg fyrirtæki komu og héldu starfsmannapartíin á strípistöðunum. Þetta var skrýtið fyrir mig að upplifa þetta og sjá viðhorfið til kvenna. Þetta var ekki andrúmsloft þar sem var borin virðing fyrir konum sem jafningjum. Ég var mjög ung og fattaði ekki allt saman, en ég sá að þetta voru ekki frjálsar konur. Þetta voru nánast eingöngu erlendar konur og svo dæmi sé tekið þá voru vegabréfin tekin af þeim þegar þær komu til landsins.“

Kamilla segist ekki hafa lent í neinu óviðurkvæmilegu enda hafi hún haft ýmis forréttindi. Einnig fannst henni á þessum tíma mjög spennandi að vinna á svona vafasömum stað. „Sjarminn var fljótur að fara. Þetta var ansi subbulegt og ég myndi ekki hvetja dætur mínar til að sækja um vinnu á svona stað. En ég kynntist líka fjölda frábærs fólks, heyrði alls kyns athyglisverðar sögur og kynntist stelpum alls staðar að úr heiminum.“

 

Átti dóttur fyrir tímann

Eftir einn vetur á Vegas hætti Kamilla og fór að starfa sem bréfberi. Henni leið vel í því starfi og ætlaði að skrifa bækur eins og skáldið Charles Bukowski, sem margir unglingar héldu upp á. Upp úr aldamótum eignaðist hún tvær dætur. Sú eldri fæddist sem fyrirburi, þremur mánuðum fyrir tímann.

„Það stóð oft tæpt með hana og var heilmikill pakki að vera tuttugu og eins árs gömul með fyrsta barn í þessum aðstæðum. Ég fór allt í einu af stað og það fannst aldrei nein ástæða fyrir því. Hún var aðeins eitt kíló þegar hún fæddist og ýmislegt sem fylgdi, hjartastopp og fleira. Hún var í þrjá mánuði á spítalanum og það var mjög erfitt meðan á þessu stóð. Hún var lengi í rannsóknum á eftir þetta og ýmsar áskoranir sem fylgdu. En sem betur fer fór þetta allt vel og það er í lagi með okkur báðar í dag.“

Tæpu ári síðar kom hin í heiminn, en þá slitnaði upp úr sambandi Kamillu og mannsins hennar.

„Ég varð ein með þær tvær og þá fór ég að huga að því að mennta mig. Að vera einstæð tveggja barna móðir væri ekkert sérstaklega gæfulegt. Þess vegna fór ég í Menntaskólann í Reykjavík og kláraði svo stúdentsprófið í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Mamma og pabbi voru þá nýflutt aftur heim, frá Berlín, og þau veittu mér mikinn stuðning með stelpurnar.“

Eftir stúdentsprófið starfaði Kamilla sem verkefnastjóri hjá frístundaheimili á vegum ÍTR. Hún fór í japönsku við Háskóla Íslands og síðar þroskaþjálfarafræði við Kennaraháskólann en kláraði ekki námið. Þegar þriðja dóttirin kom í heiminn árið 2008 fór hún í sagnfræði við Háskóla Íslands.

„Ég var ein af þessum sem hló í gegnum allt námið að þeim sem kláruðu allt nema ritgerðina. En svo gerði ég það sama sjálf,“ segir Kamilla og brosir. „Mér fannst námið mjög skemmtilegt en þegar kom að endapunktinum var ég farin að vinna og hafði meiri áhuga á öðru en að liggja yfir skjölum á Þjóskjalasafninu.“

 

Hefur trú á æskunni

Um þetta leyti var Kamilla virk í stjórnmálum. Hún sat í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar og í stjórn Ungra Jafnaðarmanna. Vorið 2007 tók hún einnig sæti á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún hefur ekki langt að sækja jafnaðarmannablóðið því faðir hennar tók nýverið sæti á þingi fyrir Samfylkinguna.

„Ég hef alltaf haft áhuga á samfélagsmálum. Ef maður er þokkalega heill sér maður að samfélagið er ekki sanngjarnt og það hallar á marga. Ein leiðin til að berjast gegn óréttlæti er í gegnum stjórnmál. En fljótlega áttaði ég mig á því að sem lífsstíll hentaði þetta mér ekki. Ef maður ætlar sér að gera þetta að frama þá verður maður að setja sig inn í öll mál og allt gerist svo hægt og erfiðlega. Að sitja á fundi í þrjá klukkutíma og tala um einhverjar vegabætur og slík mál sem skiptu mig engu sérstöku máli. Ég brann miklu frekar fyrir málum tengdum mannréttindum, en þau fá ekki jafn mikið vægi í umræðunni.“

Þannig að þú hefur engan þingmannsdraum í hjarta?

„Nei, alls ekki. Metnaður minn liggur ekki lengur þar. En ég er alltaf til í að styðja fólk til góðra verka, og hef tekið þátt í því hjá fleiri flokkum en Samfylkingunni. Ég hef einnig stutt við grasrótarstarf og var til dæmis einn vetur í stjórn Samtakanna ’78, tek þátt í mótmælum og kröfugöngum. Mér finnst mikilvægt að segja sínar skoðanir og láta ekki sitt eftir liggja. En frami í stjórnmálum er ekki eitthvað sem ég sækist ekki eftir.“

Þó að Kamilla telji að ástandið í lands- og heimsmálunum sé ekki beysið þá er hún bjartsýn á að komandi kynslóðir geti snúið við syndum fyrri kynslóða.

„Ég sé þetta núna með dætur mínar sem eru langtum róttækari en ég var nokkurn tímann, í mannréttinda- og umhverfismálum. Þær vilja ekki einu sinni kaupa sér nýjar flíkur og horfa illilega á mig ef ég fer í H&M. Sem er frábært, því þetta unga fólk mun bjarga okkur og er tilbúnara til að sjá málefni frá mörgum hliðum. Það eru líka þau sem munu þurfa að kljást við vandamálin sem við skiljum eftir, við hin eldri verðum dauð.“

 

 

Úr bókinni Kópavogskróníka – til dóttur minnar með ást og steiktum.

Á meðan ég reyni að finna út úr strætó eða hraðbanka þarna í Mjódd eða hvort ég sé búin að klúðra lífi mínu er hann örugglega að stynja fallega með nýju stúlkunni sinni og ég veit að ég á að samgleðjast honum en ég geri það ekki neitt og ákveð að athuga hvort spíttsalinn, sem ég var einu sinni alltaf að tala við, sé online því þá er hann kannski í eftirpartýi og vill leyfa mér að koma.

Þótt mér þyki hann ekkert skemmtilegur þá væri ég alla vega ekki alein. Hann er einmitt á heimleið og til í að reyna að ríða mér. Við finnum ekkert á meðan, hvorki til né unað. Þegar hann sofnar er einmanaleiki minn orðinn margfalt verri og ég fer heim án þess að kveðja því stundum fer dagurinn bara þannig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 4 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla