Tók eigið líf eftir að honum var vísað frá bráðaþjónustu geðsviðs
Sonur minn er látinn af því að hann fékk ekki aðstoð en strax eftir sjálfsvíg Kristins var mér var boðin aðstoðin sem hann fékk ekki? Ég var orðlaus og er enn.“ Þetta segir Elsabet Sigurðardóttir. Sonur hennar, Kristinn Ísfeld Andreasen, svipti sig lífi þann 16. nóvember 2008.
Fjórum dögum áður leitaði hann á bráðaþjónustu göngudeildar geðsviðs Landspítalans og vildi láta leggja sig inn vegna sjálfsvígshugsana. Kristni var hinsvegar vísað frá með uppáskrifuð svefnlyf.
Eftir að Kristinn lést var Elsabetu boðin öll sú aðstoð sem hún vildi. Þar á meðal innlögn á geðdeild. Elsabetu var því boðin aðstoðin sem syni hennar bauðst ekki og, að hennar mati, er ástæða þess að Kristinn svipti sig lífi.
„Það fyrsta sem kom upp í hugann var ha? Eru þeir að meina þetta? Ástæðan fyrir því að sonur minn lést er sú að hann fékk ekki þá aðstoð sem hann þurfti á að halda. Og þarna var mér boðin þessi aðstoð. Ég var orðlaus og er enn.“
Elsabet Sigurðardóttir hefur gengið í gegnum martröðina sem allir foreldrar óttast, að missa barnið sitt. Ekki einu sinni heldur tvisvar. Elsabet kennir læknamistökum um dauða þeirra. Guðbjörg lést 2 ára úr heilahimnubólgu árið 1981. 27 árum síðar svipti sonur hennar, Kristinn, sig lífi. Í helgarblaði DV ræðir Elsabet opinskátt um sorgina, óréttlætið og læknamistökin sem hún telur að hafi kostað þau Guðbjörgu og Kristinn lífið.
Nánar er fjallað um málið í helgarblaði DV.