Greta Salóme ætlar að skilja eftir sig fallegt fingrafar á íslenskri tónlistarsögu
„Þetta er búið að vera algjör geðveiki,“ segir tónlistarkonan Greta Salóme um síðasta ár sem hefur vægast sagt verið viðburðaríkt í lífi söngkonunnar. Á milli þess sem hún tók þátt í Eurovision á síðasta ári, útsetti verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og flutti sína eigin tónlist á tónleikum víðs vegar um heiminn, sigldi hún um heimsins höf með skemmtiferðaskipum úr flota Disney þar sem hún heillaði gesti upp úr skónum kvöld eftir kvöld. Þá lauk Greta árinu 2016 með því að taka 40 „gigga“ desember.
„Þetta eru bara keðjuáhrif svo er ég líka með frábæran umboðsmann sem hefur hjálpað mikið til,“ segir Greta aðspurð hvernig öll þessi verkefni komu til. Þá hefur hún sjálf verið dugleg að skapa sér verkefni við góðar undirtektir en Greta er uppbókuð þar til í febrúar 2018. Næsta stóra verkefni eru stórtónleikar, 17. og 18. mars næstkomandi, með norska tónlistarmanninum og lagahöfundinum Alexander Rybak, en hann vann Eurovision árið 2009 með lagið Fairytale.
Hópurinn, sem kemur fram á tónleikunum í Hörpu og í Hofi og samanstendur af Gretu, Alexander, rokkbandi, strengjasveit og dönsurum, mun flytja helstu smelli Gretu Salóme og Alexanders og auk þess spennandi bræðing af klassískum verkum, poppi og rokki, flugeldasýningum á hljóðfærin, Disney og Eurovision svo eitthvað sé nefnt.
Um þessar mundir er dagskrá Gretu svo þétt að hún segist aðeins hugsa um einn dag í einu. „Mér líður best og vinn líka betur þegar það er mikið að gera hjá mér svo ég get ekki kvartað.“
Þá er mottó hennar í lífinu er einfaldlega „Get Shit Done.“ Greta kveðst eftir fremsta megni reyna að lifa eftir þessari tilvitnun.
„Ég hef líka lúmskt gaman af því að taka áhættu. Auðvitað fer ég ekki út í hvað sem er en ég hræðist ekki að mistakast.“
Gretu er mjög umhugað að vera femínísk fyrirmynd fyrir ungar konur og stúlkur í tónlistarheiminum og hennar markmið er að skilja eftir sig fallegt fingrafar í íslenskri tónlistarsögu. „Það er mér mjög hugleikið að fá að greiða veginn fyrir íslenskar tónlistarkonur. Það eru heldur ekki margar konur í tónleikahaldi á Íslandi, þær mættu vera mun fleiri.“