Daði Freyr Pétursson sló í gegn í undankeppni Eurovision á laugardagskvöld
„Við höfum eignast nýja þjóðhetju. Hún kemur ekki í formi íþróttagarps eða stjórnmálakonu heldur venjulegs hæfileikaríks drengs í grænni peysu.“
Á þessum orðum hefst pistill Pálmars Ragnarssonar, sjónvarpsmanns, í Fréttablaðinu í dag. Þar gerir Pálmar, sem stýrði meðal annars meistaramánuði Íslandsbanka í febrúar, Söngvakeppnina á laugardagskvöld að umtalsefni.
Í pistlinum fjallar Pálmar nokkuð um Daða Frey Pétursson sem sló rækilega í gegn í undankeppninni á laugardagskvöld með lagi sínu Is this Love? Daði og félagar hans í Gagnamagninu komust alla leið í úrslit en urðu að láta í minni pokann fyrir Svölu Björgvinsdóttur í úrslitaeinvíginu.
„Hann er auðmýktin uppmáluð,“ segir Pálmar um Daða og bætir við: „Engar kröfur og engar væntingar. Hópurinn hafði ekki einu sinni fyrir því að taka með sér auka skrautsprengju (e. confetti) í höllina ef svo heppilega vildi til að þau kæmust í úrslitaeinvígið. Og skrautsprengjan var lykilatriði í annars magnaðri sviðsframkomu.
„Ein kostar 270 þannig að tvær eru á 540 kr. Viljið þið eina eða tvær?“
„Æi, tökum bara eina, það er ekkert öruggt að við komumst áfram.“
Pálmar segist velta fyrir sér hvort skrautsprengjurnar, eða öllu heldur skorturinn á þeim í seinna atriðinu, hafi verið ástæða þess að Daði stóð ekki uppi sem sigurvegari. Hvað sem því líður segir Pálmar að Daði sé flott fyrirmynd. Hann hafi sýnt það á laugardagskvöld og á undanúrslitakvöldinu.
„Daði sýnir strákum að þú þarft ekki að vera vöðvaður og tanaður til að vera töff. Þú þarft ekki heldur að vera grjótharður og með stæla. Og hvað þá að rappa um pillur eða vera nýklipptur og ganga um í rándýrum fötum,“ segir Pálmar og bætir við að lokum:
„Hann sýnir okkur að það er töff er að vera maður sjálfur, að vera einlægur, ljúfur og krúttlegur. Það er það sem við elskum við Daða. Hann er því sannkölluð fyrirmynd. Ef ég ætti ungan dreng myndi ég því óhikað segja við hann: „Sjáðu, þetta er mesti töffarinn á íslandi í dag – vertu eins og Daði“.“
Pálmar endar svo pistilinn á þeim orðum að sigurlag Svölu sé „geggjað“ – og nú sé kominn tími á að vinna Eurovision.