fbpx
Sunnudagur 08.desember 2024
Fókus

Mummi fór hjá sér þegar svæsnustu prakkarastrikin voru borin undir hann – „Fokk þetta verður eitthvað“

Fókus
Þriðjudaginn 12. nóvember 2024 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vegna fjölda áskorana er Mummi í þetta sinnið sjálfur gestur Kalda Pottsins og stiklar á stóru í gegnum lífsögu sína. Mummi var níu ára þegar hann var sendur í greindarpróf því hann hann átti svo erfitt með lestur og skrift í skóla. Hann kom glimrandi vel út úr prófinu en það hjálpaði honum lítt. Umræðan breyttist bara úr því hvað hann væri heimskur yfir í af hverju svona afburðagreindur strákur gæti ekki lært að lesa. Í brotnum fjölskyldum verður oft lítill vinskapur á milli systkina og það átti við í tilfelli Mumma og bræðra hans. Það breyttist þó með árunum og í dag ríkir mikill kærleikur á milli þeirra. Fjölmargt annað ber á góma í þættinum, meðal annars hvað varð til að kvikmyndagerðarmaður varð einn helsti talsmaður ungs fólks í vanda um margra ára skeið, hvað varð til þess að meðferðarúrræðið Götusmiðjan hætti og hvað leiddi Mumma á núverandi slóðir – inn í framlínu frambjóðanda Pírata fyrir komandi kosningar.

Svarti sauðurinn Mummi

Mummi rekur að í brotnum fjölskyldum eiga börn til í að festast í ákveðnum hlutverkum, í hans tilviki tók hann að sér hlutverkið – svarti sauðurinn- sem hélt svo fjölskyldunni saman þar sem þau gátu öll sameinast í því að kvarta undan honum. Önnur hlutverk eru til dæmis fyrirmyndarbarnið, trúðurinn, þögla barnið og týnda barnið.

Svarti sauðurinn Mummi átti erfitt með að fóta sig í skólakerfinu enda glímdi hann við lærdómserfiðleika á borð við les- og skrifblindu til viðbótar við ADHD sem hann fékk ekki greint fyrr en hann var orðinn þrælfullorðinn.

Hann fékk því engin úrræði við hæfi og þurfti sjálfur að finna leið til að deyfa sig og þá leið fann hann ungur í áfenginu, en áfengið átti eftir að hafa mikil áhrif á líf hans bæði á meðan hann neytti þess og svo eftir að hann hætti.

„Þetta á ekkert að koma út eins og þetta sé einhver harmsaga. Ég er löngu búinn að vinna í þessu öllu, raða þessum púslum saman og allt það.“

Skólakerfið brást honum, heimilislífið var ekki til fyrirmyndar út af drykkju og Mummi lét sig hverfa út í atvinnulífið um leið og hann gat, en skólaskylda var aðeins til um 14 ára á þessum tíma. Hann fór því svo ungur á sjó að þegar hann birtist fyrst á togaranum hélt áhöfnin að þarna væri komin dóttir skipstjórans, enda var Mummi lítill, hann var síðhærður og enn frekar kvenlegur í útliti eins og táningar eru gjarnan. Hann fékk minnsta stakkinn í boði og þegar hann lenti í brotsjó þá flæddi sjórinn inn á gallann og spýttist út um hálsmálið svo Mumma leið eins og hann væri við það að drukkna.

Lenti næstum í pólsku fangelsi

Hann byrjaði á togara og fór svo á fraktskip. Túrarnir voru langir og þegar hann var á landi þá drakk hann. Hann rifjar upp er hann komst í hann krappann í Póllandi í kringum 15 ára aldurinn.

„Ég var reiður ungur maður og var orðinn mjög sjóaður í slagsmálum,“ því tók hann því ekki vel þegar leigubílstjóri í Póllandi ætlaði að ræna hann. Mummi og bílstjórinn enduðu í slagsmálum en þegar lögreglan kom á vettvang þá fékk hún að hreyra aðeins hlið bílstjórans enda talaði Mummi ekki pólsku.

Þetta var á tímum kalda stríðsins og lögreglumennirnir voru þungvopnaðir. Mummi var dreginn inn í „rússajeppa“ þar sem lögreglan keyrði með hann út í sveit og henti honum þar út. Lögreglan tók af honum veskið, úrið og vegabréfið – svo keyrði hún í burtu. Mummi stóð því eftir og sá ljósin frá borginni útundan sér. En hann vissi að hann kæmist ekki vegabréfslaus aftur um borð á skipið.

Hann gekk langa leiðina að höfninni og greip á það ráð að klifa yfir gaddavírsgirðingar til að smygla sér um borð.

„Ég hefði verið skotinn niður ef einhver hefði séð mig“

Honum tókst þó að komast að skipinu bara til að sjá vígbúin landamæravörð við landganginn. Mumma tókst að fá skipverja út og tóku þá við samningaviðræður við vörðinn sem lét til leiðast fyrir þó nokkra bjóra og aura. Næst var ferðinni svo heitið til Rússlands en Mummi þurfti allan túrinn að ver aum borð í skipinu, enda vegabréfslaus.

Þorði aldrei að segja samnemendum sínum frá hrekknum

Hann rifjar upp fleiri prakkarastrik. Sem dæmi þá kláraði hann gagnfræðaprófið frá Hólum í Hjaltadal. Þar bjó hann á heimavistinni og þar var mikið djammað.

Hann rifjar upp og fer nokkuð hjá sér að óbeit hans á súrmat hafi nú mögulega gengið of langt. Hann og félagi hans komu að stórri tunnunni sem var geymd í búrinu á vistinni. Mummi tilkynnti vini sínum að það væri hlandlykt af þessu ógeði og vissi svo ekki áður en vinurinn hafði migið í tunnuna.

„Ég sagði, fokk þetta verður eitthvað. Við vorum bara tveir og þetta var fyndið í augnablikinu og svo bara gleymdum við þessu. Nema bara hvað, sorry guys sem voruð með mér Hólum og muna eftir þessu – en á hverjum degi sem var verið að planta hrísgrjónagraut og súru slátri, og þessu dóti [á diskana] , úff, þá var bara ekkert hægt að segja frá þessu“

Ævintýrin voru fleiri. Svo sem þegar hann og vinur hans, sem bjó í Kjós, ákváðu að stytta sér leið við bústörfin. Þeir létu haugsuguna ofan í læk til að dæla ofan í haughúsið. Þeim þótti mykjan nefnilega nokkuð þykk og freistuðu þess að þynna hana. Þetta verk sóttist þeim hægt og svo stíflaðist sugan. Þá ákváðu þeir að slökkva á „sog“ stillingu sugunnar og skipta yfir á blástur.

„Og þetta var 5 metra rani sem stóð bara og sprautaði mykju yfir íbúðarhúsið, bílana og allt saman um miðja nótt.“

Þeir félagar ákváðu þá að segja þetta gott og fóru að sofa. Morguninn eftir varð uppi fótur og fit, enda allt út í mykju.

Vill raunverulegar breytingar

Mummi fer hratt yfir viðburðaríka ævi í viðtalinu en tekur þó fram að til að gera því betri skil þyrfti líklega heila bók eða bókaflokk. Hann rekur hvernig ADHD-ið reyndist honum ofurkraftur þegar hann hóf meðferðarstarf fyrir ungt fólk í Götusmiðjunni.

Fyrst villtist hann inn í félagsstarf ungmenna en þar náði hann vel til ungra drengja. Þaðan skipulagði hann mótorsmiðjuna sem var félagsskapur ungra drengja. Þetta þróaðist svo yfir í mótorsendla sem svo þróaðist út í götusmiðjuna. Allt byggðist þetta á því að Mummi sá vanda drengja og jaðarsettra ungmenna sem rímuðu rækilega við hans eigin æsku. Hann vildi ekki sjá börnin fara sömu leið og hann og vildi gera eitthvað í málunum.

Hann hafi þó mætt mótlæti allan tímann og það þrátt fyrir að reyna að útskýra hversu kostnaðarsamara það er fyrir samfélagið að hafa ungmenni á götunni þar sem þau veikjast frekar, þar sem þau leiðast fremur út í glæpi og þar sem þau verða jaðarsett og eiga erfiðara með að snúa blaðinu við.

Nú er hann í framboði fyrir Pírata en það er eini flokkurinn sem hann treystir til að gera breytingar á Íslandi. Hrunflokkarnir hafi fyrir löngu sýnt sitt rétta andlit og ekki hafi vinstri stjórnin sem tók við verið skárri. Svo hafi hrunflokkarnir aftur komist til valda og endurreist gamla Ísland, nákvæmlega eins og það var í góðærinu rétt áður en allt fór í steik.

Mummi býður sig núna fram fyrir Pírata til að nota reynsluna til að stuðla að raunverulegum breytingum og ef hann kemst ekki á þing þá geti hann horft stoltur fram á við og sagt að hann hafi í það minnsta reynt sitt til að breyta landslaginu.

Hlusta má á viðtalið við Mumma og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Vuk í Fram
Fókus
Í gær

Hann á í leynilegu ástarsambandi með frænku sinni – „Ég óttast að nektarmynd komi upp um mig“

Hann á í leynilegu ástarsambandi með frænku sinni – „Ég óttast að nektarmynd komi upp um mig“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Sorgin getur hellst yfir okkur upp úr þurru, eins og risastór alda eða fljóðbylgja“

„Sorgin getur hellst yfir okkur upp úr þurru, eins og risastór alda eða fljóðbylgja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Listapar selur uppgerða eign í Sæviðarsundi

Listapar selur uppgerða eign í Sæviðarsundi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Grindavík lætur engan ósnortinn –   „Okkur langar bara að vera heima hjá okkur“

Grindavík lætur engan ósnortinn –   „Okkur langar bara að vera heima hjá okkur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunni breytti um nafn en frestaði að tilkynna móður sinni tíðindin

Gunni breytti um nafn en frestaði að tilkynna móður sinni tíðindin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ellý Ármanns spáði fyrir falli ríkisstjórnarinnar og uppgangi Kristrúnar fyrir ári síðan – Sjáðu myndbandið

Ellý Ármanns spáði fyrir falli ríkisstjórnarinnar og uppgangi Kristrúnar fyrir ári síðan – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Seldist upp á In Flames á aðeins tveimur dögum

Seldist upp á In Flames á aðeins tveimur dögum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eminem syrgir móður sína sem lést á mánudag

Eminem syrgir móður sína sem lést á mánudag