Eitt stærsta fréttamál ársins 2015 var lekinn frá framhjáhaldsvefsíðunni Ashley Madison. Síðan gaf sig út fyrir að vera öruggur staður fyrir þá sem vildu vera maka sínum ótrúi til að kynnast öðrum í sömu hugleiðingum.
Þetta öryggi var ekki meira en svo að hakkara tókst að komast yfir lista yfir notendur síðunnar. Ólíkt öðrum hökkurum var þessi þó ekki á höttunum eftir peningum. Hann vildi að síðunni yrði lokað. Fyrirtækið á bak við vefinn var að velta gífurlegum peningum og ákvað að reyna að hafa uppi á hakkaranum og múta honum. Þessar tilraunir tókust þó ekki og fór svo að listinn var birtur á netinu.
Afleiðingarnar voru gífurlegar, hjónaskilnaðir, sambandsslit, opinberar afsökunarbeiðnir og jafnvel sjálfsvíg. Íslendingar muna helst eftir málinu er upplýst var að þáverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, var skráður á síðuna undir notendanafninu IceHot1.
Eiginkona Bjarna, Þóra Margrét Baldvinsdóttir, sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem hún greindi frá því að þau hjónin hafi skráð sig saman á síðuna bara af forvitni og í „algjörum hálfkæringi og af léttúð“. Þau hafi ekki greitt fyrir skráningu eða aðgang og ekki átt þar í samskiptum við nokkurn mann.
Nýlega komu út heimildaþættir á Netflix um Ashley Madison lekann. Þar er farið yfir ævintýralegan rekstur fyrirtækisins. Til dæmis hvernig einn lykilstarfsmaður fyrirtækisins hafi sjálfur notað síðuna til að halda framhjá konu sinni. Ekki nóg með það heldur kom á daginn að stór hluti notenda, karlmanna sem töldu sig vera að ræða við fagrar konur, voru í raun að ræða við vélmenni eða hreinlega við starfsmenn Ashley Madison af báðum kynjum.
Þættirnir rekja eins mál kristinna áhrifavalda. Þau voru hjón sem höfðu öðlast frægð á YouTube fyrir kristin gildi sín og ástríkt hjónaband. Eftirminnilegasta myndband þeirra er þegar maðurinn, Sam Rader, stal sýni af þvagi konu sinnar, Niu, og komst þannig að því að hún væri þunguð og gat svo tilkynnt henni það sjálfur.
Þegar Ashley Madison listinn var birtur ákvað Sam að segja konu sinni frá því að hann var með aðgang að síðunni. Hann lofaði því að hann hefði aðeins átt í samskiptum við aðrar konur, en ekki hitt neina, hvað þá haldið framhjá. Hjónin birtu þá myndband á YouTube þar sem þau greindu fylgjendum sínum frá þessu og minntu á fyrirgefninguna sem Jesús kristur boðaði heiminum.
Það átti þó eftir að koma í ljós að Sam hafði ekki sagt alla söguna. Í raun hafði hann bara skráð sig á Ashley Madison til að halda áfram því sem hann hefði gert allt hjónabandið. Hann hafði haldið ítrekað framhjá konu sinni og jafnvel gengið svo langt að reyna við bestu vinkonu hennar sem í kjölfarið ákvað að slíta vinskapnum við Niu.
Í lok þáttanna er afhjúpað að þrátt fyrir þetta allt þá eru hjónin enn saman í dag. Þau segjast ekki kenna hakkaranum um erfiðleikana heldur hafi hann verið að sinna guðsverki með því að gefa Sam færi á að gera hreint fyrir sínum dyrum og verða betri maður.
Þau ræddu við MailOnline þar sem Sam segir að hann hafi verið veikur fyrir þar sem hann hafði aðeins stundað kynlíf með konu sinni áður en þau giftu sig. Honum hafi skort karlkyns fyrirmynd í lífinu.
„Ég hafði ekki pabba minn til að styðja mig við og til að segja mér að það komi tímar þar sem manni langar að svíkja hjúskaparheit sín og það sé erfitt en maður þurfi að standast freistinguna. Faðir minn hélt framhjá. Það var mikið áfall. Hann fór með mig heim til viðhaldsins þar sem hann hélt framhjá mömmu og svo þegar við komum heim þá sagði ég mömmu allt og þá gekk pabbi út og kenndi mér og bróður mínum um. Hann skildi mömmu eftir eina með fimm börn sem hún þurfti að sjá fyrir ein.“
Hjónin eiga í dag fjögur börn og segjast hafa sagt eldri börnum sínum frá Ashley Madison málinu. Sam segir að trú hans hafi orðið til þess að hann játaði brot sín.
„Það að misstíga sig í hjónabandi hefur ekki bara áhrif á maka þinn heldur á börnin þín líka og það hef ég sjálfur séð, og það bergmálar til kynslóðanna sem á eftir koma. Það er mér mikilvægt að stöðva vítahringinn og taka góðar ákvarðanir. Guð hefur skorað á mig um að opna mig um þetta á Netflix. Ég vorkenndi mér aldrei yfir að mínum persónuupplýsingum hafi verið lekið á netið. Ég var ekki reiður út af því. Biblían er skýr – Guð lætur ekki hæðast að sér og ég var áhrifavaldur sem titlaði mig sannkristinn en á sama tíma lifði ég með þessi leyndarmál og Nia, sem er svo sterk, Guð verndaði hana með því að afhjúpa hver ég var, og ég er honum þakklátur fyrir það en ekki hökkurunum.“
Hjónin segjast hafa komist í gegnum þetta með aðstoð prests og hjónabandsráðgjafa. Þau hafi lagt á sig vinnuna og vinnan hafi skilað þeim sterkara hjónabandi.