Netverjar elska fátt meira en góða samsæriskenningu. Þetta mátti skýrt greina þegar Katrín prinsessa hafði ekki sést mánuðum saman á almannafæri. Ævintýralegar samsæriskenningar um fjarveru prinsessunnar gengu um netheima, allt þar til Katrín steig loks fram og greindi frá því að hafa greinst með krabbamein. Það þaggaði niður í flestum. Eftir sátu netverjar með sárt ennið. Hvað væri nú hægt að fabúlera um til að gleyma hversdeginum um stund? Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst, eða svo er sagt. Nú hafa netverjar beint sjónum sínum til Bandaríkjanna og velta fyrir sér hvar fyrrum forsetafrúin, Melania Trump, er niðurkomin.
Melania er núna viðfang fjölda samsæriskenninga, enda hefur hún dregið sig úr sviðsljósinu og það þegar maður hennar er að berjast fyrir því að komast aftur í Hvíta húsið samhliða því að verjast hinum ýmsu ásökunum fyrir dómstólum. Trump ætlar í dag að funda með stuðningsmönnum sínum í Bronx hverfinu. Melania mun ekki mæta með honum. Í raun hefur forrum forsetafrúin verið fjarverandi á mörgum af stærstu viðburðum kosningaherferðar eiginmanns síns. Hún hefur heldur ekki mætt i dómsal þar sem Trump svarar til saka fyrir meintar þöggunargreiðslur. Því spyrja netverjar – Hvar er Melania?
The Mirror tók saman nokkrar gölnustu samsæriskenningarnar og verður grein gerð fyrir þeim hér.
Því hefur lengi verið haldið fram innan raða samsæriskenningasmiða að Melania hafi ráðið til sín tvífara sem hún sendir í sinn stað á viðburði sem hún kærir sig ekki um að mæta til. Þessi kenning kom fyrst fram þegar Trump var enn forseti. Þá sást Melania á rölti með manni sínum með stór sólgleraugu og lét lítið fara fyrir sér þegar fjölmiðlar gengu á mann hennar. Samsærisliðið rauk á fætur og lýsti því yfir að þetta væri ekki forsetafrúin heldur tvífari. Þessi kenning vakti það mikla athygli að bæði forsetinn og samskiptafulltrúi Melania sáu sig knúin til að vísa henni á bug. Donald sakaði vanstillta fjölmiðlamenn um að eiga við myndir af konu sinni til að kynda undir tvífarakenningunni og samskiptafulltrúinn lýsti því yfir að það væri stórfurðulegt að standa í þeim sporum að þurfa að fullvissa fjölmiðla um að Melania sé ekki sinni eigin tvífari þegar tímanum væri betur varið í að ræða um störf forsetafrúarinnar með börnum.
Önnur kenning er að Melania sé í raun rússneskur njósnari. Þessa kenningu má rekja til ársins 2017 þegar Melania spjallaði við Vladimir Pútín á ráðstefnu G-20 ríkjanna. Melania er fæddist í Slóveníu sem á þeim tíma var hluti Júgóslavíu. Hún talar fjölmörg tungumál, ensku, frönsku, þýsku, ítölsku, serbísku og slóvensku. Hún talar þó ekki rússnesku og hefur engin þekkt tengsl við landið. Því er erfitt að taka mark á þessari gölnu kenningu.
Ein galnasta kenningin um Melaniu er að henni hafi verði skipt út fyrir vélmenni. Netverjar sem halda þessu fram vísa til þess að augnaráð hennar sé kalt og tilfinningasnautt. Ein kenningin segir að forsetafrúin hafi látið lífið kvöldið sem Trump var kjörinn árið 2016 og þá skipt út fyrir rússneskt vélmenni. Sú kenning tengir í raun saman tvær ólíkar samsæriskenningar.
Hér að ofan eru teknar saman þrjár galnar samsæriskenningar. Þó lítið hafi farið fyrir þeim hafa þær þó vakið næga athygli til að eiga sína eigin wikipedia-síðu. Þar kemur fram að líklega hafi það verið dálkahöfundur The Guardian sem óvart kom kenningunum að stað árið 2017. Marina Hyde skrifaði á Twitter að hún væri sannfærð um að Melania hefði sagt skilið við Donald og því verið skipt út fyrir tvífara. Þetta tíst var svo grafið upp árið 2018 við aðstæður sem minna um margt á mál Katrínar prinsessu. Þá hafði Melania ekki sést opinberlega í um fimm vikur.
Hvíta húsið neitaði að tjá sig um málið og fóru samsæriskenningarnar því á flug. Sérstaklega eftir að fjölmiðlamenn spurðu Donald hvar kona hans væri og hann sagði að hún væri að fylgjast með úr glugga Hvíta hússins. Forsetinn benti á tiltekinn glugga, en þegar betur var að gáð var glugginn mannlaus. Síðar kom á daginn að þáverandi forsetafrúin hafði gengist undir minniháttar skurðaðgerð út af vandamáli með nýru hennar. Donald var það þó á gera innsláttarvillu þegar hann tilkynnti að kona hans væri komin aftur til starfa. Hann skrifaði Melanie í staðinn fyrir Melania. Samsærisliði taldi þetta lúmska vísun í að sú kona sem sneri til baka væri ekki raunverulega forsetafrúin.