fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Guðmundur Ingi: Smiðsmenntun dugði skammt til að eiga við fólk í geðrofi

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 4. febrúar 2020 09:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Meðhöndlun lögreglu á fólki í geðrofi var til umræðu í þinginu í gær. Þar talaði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, en hann vann áður sem lögreglumaður í sjö ár og sagðist hafa sjálfur lent í þeirri aðstöðu að eiga við fólk í geðrofi, án þess að hafa til þess nægilega þekkingu og þjálfun:

„Ég verð að viðurkenna að smiðsmenntun mín dugði skammt til að gera eitthvað í þeim málum. Það sem dugði mér langbest var að ég hafði lært í fjölda ára sjálfsvarnaríþróttir og gat þannig tekið á málunum eins og hægt var,“

sagði Guðmundur Ingi.

Landréttur sýknaði á dögunum íslenska ríkið af skaðabótakröfu manns sem handtekinn var árið 2010 í slæmu geðrofi, með þeim afleiðingum að hann fór í hjartastopp og hlaut á endanum 100%  örorku. Taldi hann að líkamstjón sitt mætti rekja til harkalegrar handtöku lögreglu.

Þá lést ung kona í fyrra eftir átök við lögregluna meðan hún var í geðrofsástandi og undir áhrifum fíkniefna. Lögreglumennirnir voru ekki ákærðir, þó svo réttarmeinafræðingur hafi fullyrt að aðgerðir þeirra hefðu átt stóran þátt í dauða hennar.

Óásættanlegt

Guðmundur Ingi  sagði að vitað væri um mjög slæm dæmi undanfarin ár þar sem lögreglan hefur verið kölluð út til að sinna fólki í geðrofi og viðkomandi hefur orðið fyrir „gífurlegum“ skaða:

„Það er auðvitað óásættanlegt, bæði fyrir lögreglu og viðkomandi veika einstaklinga, að vera í slíkum aðstæðum. Það þarf að gera eitthvað í þeim málum en það virðist ekkert vera gert. Sami hluturinn virðist endurtaka sig ár eftir ár, það er hringt og beðið um sjúkrabíl en lögreglan er send á viðkomandi einstakling sem er veikur,“

sagði Guðmundur.

Þarf aðra lausn

Hann spurði dómsmálaráðherra hvort eitthvað ferli væri í gangi hjá lögreglunni varðandi þetta og hvort verið væri að kortleggja þetta vandamál:

„Er verið að taka á þessu? Hvað er verið að gera? Eða er þetta bara eitthvað sem er svæft og ekkert er gert frá ári til árs? Það hlýtur að vera krafa um það, bæði hjá lögreglu og þessum einstaklingum, að tekið sé á þeim málum og fundin lausn og ekki sé ekki verið að senda lögreglulið á fárveikt fólk og handtaka það á mjög grófan hátt, eins og það sé einhverjir algjörir glæpamenn, sem veldur því tjóni. Það verður að finna einhverja aðra lausn.“

Engin lausn tilbúin – Frekari fundarhalda þörf

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra svaraði því til að sjálfsagt væri að skoða þessi mál og það væri undir lögreglu komið. Sagði hún þetta tilvalið mál fyrir nýstofnað lögregluráð til að fjalla um ásamt héraðssaksóknara og ríkislögreglustjóra.

„Ég bind miklar vonir við að það samtal muni gagnast lögreglunni vel í hinum ýmsu málum. Lögreglumenn sinna auðvitað vandasömum verkefnum á hverjum degi og við eigum frábært lið lögreglumanna sem sinnir fjölmörgum útköllum þar sem fólk er aðstoðað sem glímir oft við andleg veikindi og misnotar fíkniefni o.fl. Þá er mikilvægt að lögreglan sé líka í stakk búin til að taka á þeim málum og þekki aðstæður og þekki einkenni og kalli til aðra viðbragðsaðila eins og hv. þingmaður nefnir, líkt og sjúkrabíla og aðra til aðstoðar sé þess þörf. Ég held að með breytingum í samfélaginu og meiri þekkingu á geðrænum vandamálum og þeim áskorunum færist það til betri vegar og að þekking og umræða sé bara til þess að bæta og vonandi endurskoða verklag sé þess þörf.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt