fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Meistaraverkið 1917

Egill Helgason
Laugardaginn 11. janúar 2020 16:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvikmyndin 1917 er talin líkleg til að hreppa Óskarsverðlaunin, hún fékk Golden Globe sem besta myndin á dögunum. Myndin gerist á vígvöllum fyrri heimsstyrjaldarinnar – þar sem ungum karlmönnum var slátrað í milljónatali. Fjallar um tvo unga hermenn sem fara eins konar Odysseifsferð um skotgrafirnar og einskis manns land. Allt er þetta ótrúlega vel gert, þarna er kvikmyndagerð af slíkri fullkomnun að maður hefur varla séð slíkt áður. Tæknilega þykir myndin vera mikið afrek, mikið af henni er tekið í einni samfelldri töku – maður þarf að stúdera myndina vel til að skilja það allt.

En henni er líka borið á brýn að hún sé of tæknileg, þarna séu kvikmyndagerðarmenn sem kunna ótrúlega vel til verka að sýna færni sína – þar af leiðandi sé myndin tilfinninga- og sálarlaus.

Því er ég alls ekki sammála. Tæknin er ekki notuð til þess eins að sýnast, heldur skapar hún ótrúlega nánd. Maður er nánast ofan í skotgröfunum innan um drullu og rottur, menn sem eru í stöðugum lífsháska, lifa við ömurlegan aðbúnað, eru eins og sláturdýr – en eru um leið að reyna að þrauka ótúleg leiðindi skotgrafalífsins. Þetta er sérlega nöturleg lýsing, á víð og dreif eru rotnandi lík og hræ af dýrum – ungum mönnum, sem gætu átt svo margt sameiginlegt, er att hverjum á móti öðrum, eru látnir kasta lífi sínu á glæ til að drepa og valda eyðileggingu. Það er hrikaleg sena þegar ungi hermaðurinn vaknar úr roti og stígur út í rústaborg, upplysta af sprengingum og blysum, þar sem hlaupa um myrðandi skuggaverur – rétt eins og atriði úr sjáfu víti.

Myndin spilar á tilfinningarnar en verður aldrei væmin. Það hefði getað farið miklu verr í meðförum sumra bandarískra leikstjóra – leikstjórinn Sam Mendes er Breti og myndin er að hluta til byggð á minningum afa hans úr stríðinu. Atriðið þar sem tvær ungar manneskjur hittast í miðjum bardaga í kjallara sem er ekki lýstur af neinu nema olíulampa, með barn sem þau eiga ekki en gæti þó svo hæglega verið barnið þeirra, er sammannlegt og hefði getað verið í hvaða stríði sem er.  Í 30 ára stríðinu jafnt og í Sýrlandi í fyrradag.

Þannig fjallar myndin ekki bara um þetta tiltekna stríð, fyrri heimsstyrjöldina, heldur um öll stríð. Minnir þannig á hrikalegustu stríðsmynd allra tíma, Komið og sjáið eftir Elem Klimov.

Það eru í raun engar hetjudáðir unnar í þessari mynd nema sú að  lifa af. Líkurnar á því eru ekkert sérlega miklar og enginn fer úr svona hildarleik án þess að bíða sálartjón. Ungi hermaðurinn sem er aðalpersónan gefur ekkert fyrir orðuna sem honum var veitt. Það er ekki fyrr en í lokin að hann tekur upp mynd af fjölskyldu sinni. Þar birtast andstæður sem vekja mann til umhugsunar um tíma myndarinnar – ljósmyndirnar sem allt í einu koma upp úr vasa eru svarthvítar, teknar á stofu og virka fornar en myndin er öll í ótrúlega nákvæmum, nútímalegum og skýrum litum.

Um friðarboðskap myndarinnar þarf ekki að efast, hvergi er stríðinu sungið lof eða prís, eða lýst sem öðru em tilgangslausum hryllingi. En um leið nálgumst við persónurnar, skynjum vináttu sem verður til við slíkar aðstæður – og svo hvernig grimmd stríðsins gefur ekki tíma til að syrgja þegar vinirnir falla. Eftir fyrri heimsstyrjöldina þurftu ekki bara hermennirnir heldur Evrópa öll stórkostlega áfallahjálp. En hún var ekki í boði.

Bíósalurinn var fullur í gærkvöldi. Ég heyrði ungt fólk spyrja á leiðinni út úr bíóinu: Um hvað var þetta stríð? Ég tel mig sæmilega fróðan um sögu en ég á ekki einfalt svar við því.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus