fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Matur

Hafa vart undan að búa til Bragga: „Við erum ekkert að fara fram úr neinum kostnaðaráætlunum“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 19. október 2018 10:27

Viktor var hæstánægður með vinsældir Braggans.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við erum mikið að pæla í því að fara niður í Ráðhús og afhenda borgarfulltrúum óuppgerða bragga, með þeim skilaboðum að við mælum ekki með því að gera þá upp,“ segir Viktor Sigurjónsson og hlær, en Viktor sér um sölu- og markaðsmál fyrir Kristjánsbakarí, sem rekur bakarí norður á Akureyri en dreifir einnig bakkelsi í matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu.

Viktor.

Ein af vinsælustu vörum bakarísins, og jafnframt þeim sem hefur verið framleidd hvað lengst, er Braggi – tveggja laga súkkulaðikaka sem er fyllt með smjörkremi og húðuð með súkkulaðihjúp. Bragginn, sem var fyrst framleiddur í kringum 1970 og hefur því verið á borðum Íslendinga í nokkra áratugi, hefur verið gríðarlega vinsæll síðustu daga, allt eftir að braggamálið svokallaða kom upp í Reykjavík er varðar uppgerðan bragga í Nauthólsvík sem fór langt fram úr kostnaðaráætlun. Kristjánsbakarí hoppaði á braggavagninn og hefur farið á kostum á Facebook-síðu sinni í gríni og glensi.

Sjá einnig: DV birtir allt braggabókhaldið.

Bragginn er súkkulaðikaka fyllt með smjörkremi og húðuð með súkkulaði.

„Við ákváðum að nýta okkur umtalið og skjóta aðeins á þetta glórulausa mál,“ segir Viktor. „Okkur fannst þetta fyndið þar sem við áttum vöru sem heitir það sama. Maður verður að taka smá grín á þetta – það má ekki taka lífinu of alvarlega. Kakan er kallaður Braggi því hún er bökuð í svokölluðu braggaformi sem er ævafornt. Það er lán í óláni að þetta fór svona,“ segir Viktor og brosir.

Jólaundirbúningi frestað

Bragginn slær í gegn.

Hann segir Braggana blessuðu hafa skapað mikið umtal síðustu daga, sérstaklega norður á Akureyri, en lengi hefur verið góðlátlegur rígur á milli höfuðborgarinnar og höfuðstaðarins fyrir norðan.

„Þetta er aðalumræðuefnið fyrir norðan. Að gamli, góði Bragginn sé beinlínis kominn aftur. Það má nú alveg skjóta á milli landshluta. Munur á stríðni og gríni er sá að þegar um stríðni er að ræða þá líður einhverjum illa en þegar grín er annars vegar líður öllum vel. Við verðum að geta hlegið að þessu kostulega máli.“

Viktor segir starfsmenn Kristjánsbakarí hafa lagst á eitt og nú sé vart tími til að framleiða nokkuð annað en Bragga, slíkar eru vinsældirnar.

„Eftir allt umtalið hefur salan rokið upp. Við dreifðum Bröggum í verslanir á höfuðborgarsvæðinu á þriðjudag og fimmtudag og þurfum að dreifa aftur í dag. Þetta selst á núll einni. Sölumenn í verslunum segja birgðirnar tæmast fljótt. Fyrir norðan höfum við lítið annað gert en að framleiða Bragga. Þetta er mikil handavinna en við erum ekkert að fara fram úr neinum kostnaðaráætlunum – við vitum alveg hvað þetta kostar,“ segir Viktor og hlær. „Við frestum bara öðrum verkum, eins og einhverju tengt jólunum sem þarf að fara að undirbúa. Við bara komum því fyrir á öðrum tímum. Það er hörkuduglegt fólk að vinna hjá okkur sem er alltaf til í að taka þátt í svona. Það er skemmtilegt þegar eitthvað svona nýtt gerist – þá langar fólki að taka þátt. Við erum með frábæra bakara og starfsfólk sem við gætum ekki verið án.“

Uppgerður Braggi á rúmlega 1000 krónur

Hefðbundinn Braggi er til hálfur og heill í bakaríunum fyrir norðan. Í dag kynnti Kristjánsbakarí svo viðbót við Braggalínuna – nefnilega uppgerðan Bragga með rándýrum stráum sem er tilvalinn í braggapartíið.

„Vinnustaðir eru strax byrjaðir að hringja og panta þennan uppgerða Bragga,“ segir Viktor og hlær. Hann útilokar ekki að fleiri Braggaútfærslur verði þróaðar á næstu dögum. „Við viljum samt ekki gera þetta of þreytt og höldum áfram þar til þetta hættir að vera fyndið. Við gerum örugglega eitthvað meira sniðugt í kringum þetta. Verslunirnar eru líka til í að taka þátt í gríninu með okkur og setja upp skilti með einhverjum skrítlum,“ segir Viktor, en skiltið sem auglýsir uppgerða Braggann á Akureyri er einmitt frekar kostulegt.

Uppgerði Bragginn. Takið eftir stráunum.

„Bragginn kostar 1090 krónur en á skiltinu er búið að strika yfir 46 milljónir,“ segir Viktor og brosir.

Taka glöð þátt í Skaupinu

Fyrir stuttu var tilkynnt hverjir sæju um Áramótaskaupið í ár og má nánast slá því föstu að braggamálið komi við sögu. En hafa aðstandendur Skaupsins haft samband við Kristjánsbakarí uppá æta Bragga?

„Þau hafa ekki haft samband en þeim er velkomið að gera það. Við tökum þátt í því gríni með glöðu geði.“

Bragginn eftir yfirhalningu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa