Samkvæmt heimildum TalkSPORT eru Tottenham Hotspur þegar farnir að huga að því að virkja kauprétt sinn á portúgalska miðjumanninum Joao Palhinha, sem hefur vakið mikla athygli frá því hann kom á lán frá Bayern München í síðasta mánuði.
Palhinha, sem er 30 ára, hefur skorað tvö mörk í öllum keppnum fyrir Spurs, þar á meðal glæsilegt hjólhestaspyrnumark í 3. umferð enska deildarbikarsins á miðvikudagskvöldið í 2-0 sigri gegn Doncaster á heimavelli.
Sky Sports News greinir frá því að Tottenham hafi tryggt sér kauprétt í lok tímabilsins upp á 27 milljónir punda, þegar samið var um lánssamninginn við Bayern München.
Nú er fullyrt að þjálfari liðsins, Thomas Frank, sé mjög hlynntur því að félagið virki þennan möguleika og tryggi sér þjónustu Palhinha til langs tíma.
Palhinha hefur áður leikið með Fulham í ensku úrvalsdeildinni, en átti erfitt uppdráttar hjá Bayern eftir að hann gekk til liðs við þýsku meistarana síðasta vetur. Hann hefur hins vegar blómstrað á ný með Spurs og fengið lof fyrir spilamennsku sína.