Samkvæmt Manchester Evening News og fleiri. miðlum er það farið að pirra leikmenn Manchester United nokkuð hressilega hvað Antony fær að spila mikið.
Antony var keyptur af Erik ten Hag fyrir rúmu ári síðan á 75 milljónir punda. Hann kom frá Ajax þar sem hann lék undir stjórn Ten Hag.
Frá fyrsta degi hefur Ten Hag sett mikið traust á Antony en ekki alltaf fengið það til baka. „Sex leikir í byrjunarliði og sex lélegir leikir frá Antony á þessu tímabili. Ótrúlegt að hann haldi alltaf sætinu sínu,“ skrifar Samuel Luckhurst blaðamaður hjá Manchester Evening News.
Hann bendir á að Antony hafi verið hent á bekkinn á síðasta ári gegn Manchester City og það ætti að verða raunin á sunnudag þegar liðin mætast.
Fraser Fletcher hjá Talksport lagði orð í belg. „Þetta er eitt af þeim vandamálum sem er í klefanum hjá United,“ segir Fraser og segir að leikmenn séu komnir með nóg af því að sumir leikmenn séu í uppáhaldi stjórans og frammistaða þeirri breyti engu.