Borgarstjóri Hiroshima hefur boðið Bandaríkjaforseta að koma í heimsókn eftir að forsetinn líkti sprengjuárás Bandaríkjanna á Íran við kjarnorkuárásina sem var gerð á Hiroshima árið 1945.
Á leiðtogafundi NATO í síðustu viku sagði Donald Trump:
„Árásin sem lauk stríðinu. Ég vil ekki nota Hiroshima sem dæmi, ég vil ekki nota Nagasaki sem dæmi, en þetta var í grófum dráttum eins.“
Kjarnorkuárásirnar hafi markað endalok heimsstyrjaldarinnar alveg eins og nýleg árás Bandaríkjanna á kjarnorkuinnviði Írans batt endi á átök Íran og Ísrael.
Japanir voru ekki ánægðir með þessi ummæli forsetans. Borgarstjórn Hiroshima samþykkti ályktun þar sem ummælin voru fordæmd og sögð réttlæta notkun kjarnorkusprengja, eftirlifendur kjarnorkuárásanna héldu fámenn mótmæli við minnisvarða um þá sem féllu í árásinni og borgarstjórinn Kazumi Matsui sagði við fjölmiðla:
„Mér sýnist sem svo að hann átti sig ekki fyllilega á raunveruleika kjarnorkusprengja sem, ef notaðar, svipta fjölda sakleysingja lífinu sama hvort sem þeir eru bandamenn eða óvinir, og ógna tilvist mannkynsins.“
Matsui sagðist óska þess að Trump kæmi í heimsókn til að sjá afleiðingar kjarnorkusprengjanna og andlegu sárin sem Hiroshima mun bera vegna þeirra til frambúðar. 140 þúsund Japanir féllu í árásinni á Hiroshima og 74 þúsund í Nagasaki, ýmist vegna sprengjunnar sjálfrar eða sökum geislaeitrunar.
Yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, Tusli Gabbard, heimsótti Hiroshima nýlega og sagði heimsóknina hafa slegið hana.
„Ég heimsótti nýlega Hiroshima í Japan og stóð í hjarta borgar sem enn ber ör eftir ólýsanlega hrylling sem ein kjarnorkusprengja olli árið 1945, fyrir 80 árum síðan. Það er erfitt að koma því sem ég sá í orð, sögunum sem ég heyrði og átakanlegri sorginni sem enn liggur þar yfir. Þetta er reynsla sem ég mun aldrei gleyma.“