Tveggja barna móðir sem missti handlegg og fótlegg þegar hún féll niður á neðanjarðarlestarpalli og varð fyrir tveimur lestum „stuðlaði sjálf að“ meiðslum sínum með gáleysi, segir fyrirtækið sem rekur lestakerfið, Trains For London (TfL) í 25 milljóna punda málsókn.
Sarah de Lagarde, 46 ára, sem starfaði sem yfirmaður fyrirtækjamála hjá fjárfestingarfyrirtækinu Janus Henderson, var á leið heim úr vinnu klukkan 22:00 þann 30. september 2022. Hún sofnaði á leiðinni og var vakin af öðrum farþega við enda Norðurlínunnar á High Barnet stöðinni í norðurhluta London. Þegar hún steig úr lestinni, sá hún að lestin var að fara til baka sömu leið. De Lagarde ætlaði því að stíga til baka og fara aftur um borð í lestina, en rann til á blautum lestarpallinum og féll hún niður í bilið milli lestarpallsins og lestarinnar, segir í umfjöllun Daily Mail í gær.
Enginn heyrði örvæntingarfullt óp hennar eftir hjálp og tvær lestar keyrðu yfir hana. Þegar henni var bjargað og hún flutt á sjúkrahús þurfti að fjarlægja tvo útlimi, handlegg og fótlegg. De Lagarde lá á brautinni í 15 mínútur áður en viðvörun fór í gang.
„Tuttugu og tvö tonn af stáli krömdu útlimi mína og eins og það væri ekki nóg, þá varð enginn var við mig á teinunum fyrr en önnur lest kom inn á stöðina og kramdi mig í annað sinn.“
Nokkrum vikum fyrir slysið hafði De Lagarde farið í draumaferðina ásamt eiginmanni sínum þar sem þau gengu á Kilimanjaro-fjall. Í viðtali í byrjun desember árið 2022 sagði hún:
„Ég man bara eftir því að hafa hugsað með mér, þegar ég lá í þessum skítuga skurði í High Barnet, að ég hefði ekki klifið Kilimanjaro-fjall til að deyja hér í köldu, blautu mölinni. Ég er ekki að deyja hér. Engan veginn. Ég þarf að vera með dætrum mínum. Eina stundina er maður á toppi veraldar, þá næstu er maður að lenda á botninum.“
De Lagarde höfðaði mál gegn London Underground Ltd (LUL), sem er hluti af Transport for London (TfL), og krefst 25 milljóna punda í bætur. Í skjölum sem lögð voru fyrir Hæstarétt neitar TfL þó ábyrgð og heldur því fram að meiðsli De Lagarde hafi verið afleiðing af eigin gáleysi hennar.TfL segir að hún hafi „sett sig í hættu“ vegna þess að hún hafi sýnt „gáleysi“ í því hvernig hún steig út úr lestinni.
„Stefnandi tók nokkur skref áfram á pallinn og síðan nokkur skref aftur á bak, áður en aftanverður líkami hennar lenti í afturhlið hurðarinnar á lestinni sem hún hafði farið úr. Stefnandi hélt áfram að hreyfa sig aftur á bak og, um það bil sjö sekúndum eftir að hún fór úr lestinni, féll hún í bilið á milli vagna fimm og sex í lestinni.“
Um fimm mínútum síðar gekk lestarstjórinn aftur í gegnum lestina til að komast að ökumannsklefanum til að hefja heimferð sína suður á bóginn. Hann tók eftir brúnni tösku De Lagarde klemmdri á milli lestarinnar og pallsins, sem hann síðar afhenti sem týndan mun. En hann rannsakaði ekki málið frekar.
Í skjölum TfL segir að ökumaðurinn „hafi hvorki séð né heyrt stefnanda á þeim tímapunkti og hafi ekki litið í bilið, þar sem hann hafði enga ástæðu til þess“.
De Lagarde kallaði á hjálp en enginn heyrði í henni og lestin hélt af stað og tók af hægri handlegg De Lagarde. Henni tókst að ná í símann sinn en andlit hennar var svo illa meitt að andlitsgreining virkaði ekki á símann og það var of blautt eftir rigninguna til að snertiskjárinn virkaði, svo hún reyndi aftur að hrópa á hjálp. Enn heyrði enginn til hennar. Og þá kom önnur lest og ók yfir hægri fótlegg hennar.
De Lagarde var flutt með þyrlu á Royal London Hospital í Whitechapel þar sem hún gekkst undir aðgerð áður en hún var flutt á endurhæfingardeild í Lambeth 20. október. Hún var útskrifuð 1. desember 2022 en fær áframhaldandi umönnun á Royal National Orthopaedic spítalanum í Stanmore.
TfL segir að ökumaður annarrar lestarinnar hafi ekki séð De Lagarde liggja á brautinni, þrátt fyrir að aðalljós lestarinnar væru kveikt. TfL sagði þó að tilgangur ljósanna væri „ekki að lýsa upp brautirnar eða pallinn“ heldur að gera lestina sýnilega starfsmönnum á brautinni.
De Lagarde lá á brautinni í 15 mínútur áður en viðvörun var send og slökkvilið London og sjúkraflutningamenn sjúkraflugs borgarinnar voru látnir vita. Þrír sjúkraflutningamenn hjálpuðu til við að bjarga lífi hennar, og hlutu þeir viðurkenningu fyrir hugrekki.
„Sarah var föst í mjög óþægilegri stöðu svo ég skreið undir lestina til að hjálpa slökkviliðinu að ná henni út. Saman þurftum við að bera hana um 30 metra undir lestina og setja hana á tæki til að lyfta henni upp á pallinn. Hún var mjög hljóðlát, föl og hafði misst blóð,“ sagði einn þeirra, Kevin Cuddon.
Þegar De Lagarde steig úr lestinni steig hún út á aðgengisbrún, halla á rampi sem er hannaður til að auðvelda hjólastólanotendum að fara um borð í lestirnar. Rannsókn TfL leiddi í ljós að rampurinn var „í meginatriðum í samræmi“ við staðla TfL og að það teljist ekki fullkomið fyrirkomulag að gangandi farþegar stígi á rampinn, en slíkt var engu að síður gert.
De Lagarde segist hafa verið með meðvitund allan tímann og kallað stöðugt á hjálp. Í kröfu hennar fyrir dómi kemur fram að hún lá að hluta til yfir fyrsta teininn á brautinni, næst lestarpallinum. Hún gat ekki fært sig inn í hólf sem er á vegg pallsins þar sem það var lokað með stálgrind.
Miðvikudaginn 25. júní sótti frú de Lagarde fyrstu réttarhöldin fyrir Hæstarétti í máli sínu gegn TfL. Dómarinn gaf til kynna að átta daga réttarhöld yrðu fyrirhuguð fyrir Hæstarétti í byrjun árs 2027.
Fyrir utan dómsstólinn, Royal Courts of Justice í miðborg London, sagði De Lagarde:
„Það er kraftaverk að ég lifði af, en það var dýrkeypt, fyrri lestin tók handlegginn og sú seinni fótinn á mér. Þetta kvöld missti ég líka hreyfigetu mína, sjálfstæði mitt, reisn mína og umfram allt hæfileikann til að faðma tvö ung börn mín með báðum höndum. Í dag stend ég hér, ekki bara sem eftirlifandi heldur einnig sem rödd fyrir breytingum.“
TfL mótmælir því að aðrar öryggisreglur gildi fyrir lestir sem fara frá endastöð, ólíkt stöðvum annars staðar á línunni. „Sömu athuganir eru nauðsynlegar þegar lest er send af stað frá endastöð og stöð utan endastöðvar,“ segir TfL.
Thomas Jervis, lögmaður De Lagarde segir um málið: „Eins og milljónir annarra Londoníbúa var Sarah de Lagarde aðeins að reyna að komast heim úr vinnunni þegar hún varð fyrir tveimur neðanjarðarlestarlestum á High Barnet stöðinni. Transport for London neitar að taka ábyrgð og kennir Söru um það sem gerðist. Þetta mál er ótrúlega mikilvægt og gæti haft djúpstæð áhrif á hvernig samgöngukerfi Lundúna verður rekið í framtíðinni.“
Talsmaður TfL sagði: „Við erum að bregðast við lagalegri kröfu sem Söru de Lagarde höfðaði. Það er ekki viðeigandi að ræða smáatriði um vörn okkar á meðan þetta mál stendur yfir. Hugur okkar er áfram hjá Söru og fjölskyldu hennar eftir þetta hræðilega atvik og við munum halda áfram að gera allt sem í okkar valdi stendur til að læra af öllum atvikum í neðanjarðarlestarkerfinu. Öryggi er okkar aðalforgangsverkefni og við munum alltaf hafa það í huga.“