Atvikið átti sér stað þann 28. febrúar síðastliðinn í frönsku Ölpunum en í myndbandinu sést maðurinn, sem mun vera á þrítugsaldri, halda á stórri snjókúlu sem hann sleppir svo á fólk fyrir neðan. Fólkið var að næra sig á skíðasvæðinu og lenti snjókúlan á höfði 61 árs manns.
Maðurinn slasaðist sem betur fer ekki alvarlega en var eðli málsins samkvæmt brugðið. Gleraugu mannsins brotnuðu en hann var í skíðaferð með fjölskyldu sinni, þar á meðal ungu barnabarni, þegar atvikið varð.
Forstöðumaður skíðasvæðisins segir að kæra hafi verið lögð fram strax og hafa kennsl verið borin á árásarmanninn. Sjálfur kveðst ungi maðurinn ekki hafa ætlað að kasta snjóboltanum í höfuð mannsins heldur hafi hann miðað á borðið þar sem fólkið sat. Honum mátti þó sennilega vera ljóst að kúlan gat lent hvar sem var.
The Times segir að maðurinn gæti að hámarki átt yfir höfði sér þriggja ára fangelsisdóm vegna málsins.