
Andrés Bretaprins á ekki sjö daganna sæla en Bretar kalla nú eftir því að hann verði formlega beittur viðurlögum vegna tengsla hans við níðinginn og athafnamanninn Jeffrey Epstein. Andrés tilkynnti í síðustu viku að hann ætlaði að hætta að nota konunglega titla sína, en mörgum þykir það ekki nóg. Það þurfi að formlega svipta hann titlum.
Fjaðrafokið má meðal annars rekja til endurminninga Virginu Giuffre, eins þekktasta þolanda Epsteins. Breskir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa nú farið fram á að formlega umræðu um prinsinn á þingi, en ríkisstjórnin hefur þó hingað til hafnað kröfunni. Frjálslyndir demókratar hafa nú gefið til kynna að þeir muni nota sérstakan umræðutíma stjórnarandstöðunnar til að leggja það formlega til að Andrés verði sviptur titli og úthýst af heimili sínu.
Fyrrum eiginkona Andrésar, Sarah Ferguson, er sögð brjáluð út af þessu öllu. Hún sé á barmi taugaáfalls og hafi fengið móðursýkiskast þegar prinsinn tilkynnti henni að hún þyrfti að afsala sér titlinum hertogaynjan af Jórvík. Ferguson og Andrés hafa verið mjög náin eftir skilnaðinn, og meðal annars búið áfram saman eftir skilnaðinn, en nú mun samband þeirra vera stirt.
„Þau eru stöðugt að rífast og staðan orðin ljót.“
Ferguson hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir tölvupóst sem hún ritaði til Epstein árið 2011 þar sem hún kallaði hann náinn vin, en hún mun undanfarið hafa sagt öllum sem heyra vilja að það hafi verið Andrés sem sagði henni að skrifa Epstein til að biðja um fjárhagsaðstoð. Prinsinn mun saka sína fyrrverandi um græðgi fyrir að hafa beðið Epstein um lán. Hún geti sjálfri sér um kennt enda hafi hún lengi lifað um efni fram.
Bæði Ferguson og Andrés eru sögð alvarlega íhuga að flýja Bretland.
Heimildarmenn breskra miðla halda því fram að konungur sé nú að þrýsta á bróður sinn að rýma heimili sitt til margra ára, Royal Lodge, sem er þrjátíu herbergja hús í Windsor sem áður tilheyrði drottningarmóðurinni.
Allt þetta uppþot hefur eins vakið athygli á fjármálum prinsins en ríkisendurskoðun Bretlands mun nú ætla sér að taka til skoðunar hvernig prinsinn hefur búið í Royal Lodge áratugum saman án þess að borga leigu.