Amy Morell, 53 ára gamall starfsmaður í heimavistarskóla (Meadowridge Academy) í Massachusetts í Bandaríkjunum, lést í kjölfar þess að 14 ára drengur, nemandi við skólann, sparkaði í brjóstkassa hennar.
Hið hörmulega atvik átti sér stað síðdegis á miðvikudag. Heimildir herma að drengurinn hafi ætlað að yfirgefa heimavistarálmu skólans án leyfis og Morrell hafi reynt að stöðva hann með handafli. Átök brutust út á milli þeirra tveggja með þessum óvæntu og hörmulegu afleiðingum.
Strax í kjölfar árásar nemandans reyndu starfsmenn hjartahnoð við hina meðvitundarlausu Morell og henni var síðan ekið með hraði í sjúkrabíl á bráðadeild. Þar var hlúð að henni en á fimmtudeginum var hún látin.
Unglingurinn sem í hlut átti hefur verið ákærður fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða.
Mirror greinir frá og vitnar í viðtal WCVB-sjónvarpsstöðvarinnar við vin Amy Morrell, sem lýsir atvikinu bæði sem stórundarlegu og afar sorglegu. Hann segist ekki hafa getað órað fyrir því að svona nokkuð gæti komið fyrir vinkonu hans. Hann sagði:
„Þú lendir í slagsmálum, þú heldur ekki að þú sért að fara að slá einhvern og að viðkomandi sé að fara að deyja á staðnum, sérstaklega ekki ef þú ert krakki. Líf þessa barns er líklega eyðilagt. Lífi hennar er lokið. Þetta er bara mjög sorgleg staða.“