Nathaniel Schumann var 8 ára gamall og hafði ekki sagt mikið á stuttri ævinni. Hann var greindur með einhverfu og hafði aðeins náð tökum á að segja örfá orð, en aldrei talað í heilum setningum.
Þetta breyttist allt þegar hann tók inn lyf sem kallast leucovorin, lyf sem er gefið við skaðlegum aukaverkunum krabbameinsmeðferðar og í vissum tilvikum við blóðleysi. Áhrifum lyfsins svipar til áhrifa B-vítamínsins fólats. Vísbendingar hafa komið fram undanfarin ár að lyfið geti gagnast ákveðnum hópi einhverfra barna sem glíma við fólatskort.
Nathaniel er eitt þeirra barna sem hafa blómstrað eftir að hafa fengið lyfið. Móðir hans, Kathleen Schuman, segir í samtali við The New York Post, að hún hafi leitað allra leiða til að hjálpa syni sínum eftir að hann greindist þriggja ára með einhverfu.
„Það var ekki hægt að eiga samræður við hann. Það er hryllilegt sem foreldri, að vita að þú getur ekki talað við þitt eigið barn eða að einhver gæti skaðað hann og hann gæti ekki sagt frá því.“
Nathaniel fór í greiningu eftir að foreldrar hans tóku eftir því að hann var ekki að ná sömu áföngum í þroska og eldri systir hans. Hann byrjaði seint að ganga og þó að hann hafi lært að segja eitt til tvö orð tókst honum ekki að nota orðin til að tjá sig í setningum.
Kathleen lagðist í rannsóknarvinnu og fann þannig leucovorin og komst að því að verið væri að rannsaka mögulega kosti þess fyrir einhverf börn. Talið er að sum börn með einhverfu séu með mótefni í líkamanum sem koma í veg fyrir að fólat komist til heilans. Þetta getur haft mikil áhrif á getu þeirra til að tjá sig og gert hegðunarerfiðleika verri.
Hún var þó meðvituð um að lyfið er engin lækning, en mögulega gæti það gefið drengnum hennar rödd. Henni tókst að koma Nathaniel í lyfjarannsókn og vonaði heitt og innilega að hann endaði ekki í samanburðarhópi sem fær lyfleysu. Á örfáum vikum varð ljóst að hann hafði fengið raunverulega lyfið því Nathaniel byrjaði að tjá sig.
„Þegar hann byrjaði að taka leucovorin er eins og eitthvað hafi smillið. Hann fór frá því að segja eitt til tvö orð í að tala í heilum setningum á innan við hálfu ári.“
Það er þó ekki nóg að taka inn lyfið. Það getur gefið sumum börnum getuna til að tjá sig, en þau þurfa engu að síður að læra það. Nathaniel var því sendur í talþjálfun og árangurinn lét ekki á sér standa. Í dag er hann lukkulegur 13 ára unglingur sem syngur í kór, æfir íþróttir og spilar á hljóðfæri. Ekkert af þessu hefði verið hægt ef hann hefði ekki fengið rödd sína.
Þó að Kathleen sé lukkuleg með þennan árangur vill hún minna á að Nathaniel er heppinn. Það voru ekki öll börnin í rannsókninni jafn heppin, enda virkar lyfið ekki fyrir alla. Því sé mikilvægt að yfirvöld noti ekki lyfið til að draga úr þjónustu við einhverf börn. Þau þurfi enn mörg slíka þjónustu. Þetta er ekki töfralyf þó að það hafi virkað sem slíkt hjá syni hennar.
Hvað Nathaniel varðar þá kom á daginn að þó að hann gæti ekki tjáð sig fyrstu 8 árin þá hlustaði hann, heyrði og skildi. Hann hafði því ýmislegt að segja og var með langan lista af hlutum sem honum fannst mikilvægt að koma á framfæri. Hann gat til dæmis loksins klagað eldri systur sína fyrir allt sem hún hafði gert á hans hlut síðustu árin.
Kathleen man sérstaklega hvernig hann lýsti því sjálfur að geta loks tjáð sig: „Ég get sagt ykkur frá sjónvarpinu í hausnum á mér með munninum mínum.“