The Guardian segir að tilkynnt hafi verið um brothljóð, sem bárust frá húsi einu, þegar margir af um 60 Eþíópíumönnum, sem var haldið þar föngnum, hafi brotist út úr húsinu. Allir voru þeir klæðalausir.
Lögreglan handtók þrjá menn á vettvangi, grunaða um mansal og vörslu skotvopna. 11 voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar.
Lögreglan hefur ekki enn haft upp á öllum Eþíópíumönnunum sem voru í húsinu.
Talsmaður lögreglunnar sagði að ummerki á vettvangi bendi til að um mansal hafi verið að ræða og að mennirnir hafi verið látnir vera naktir til að niðurlægja þá og koma í veg fyrir að þeir myndu flýja.