Ævisöguritarinn Michael Wolff heldur því fram að Donald Trump Bandaríkjaforseti sé að hreykja sér af fréttum um meinta fíkniefnaneyslu Elon Musk. Miðillinn New York Times birti fyrir nokkru frétt um að Musk hefði neytt svo mikilla vímuefna á síðasta ári að það hafi valdið honum vandræðum við þvaglát.
Musk brást ókvæða við þessari frétt og sakaði miðilinn um lygar. Í færslu á X skrifaði hann: „Svo það sé á hreinu þá er ég EKKI að taka inn fíkniefni. The New York Times eru að ljúga af sér rassgatið. Ég prófaði ketamín, samkvæmt lyfseðli, fyrir nokkrum árum og deildi reynslunni á X svo þetta eru engin tíðindi. Þetta hjálpar mér að komast upp úr djúpri andlegri holu en ég hef ekki tekið þetta síðan þá.“
Wolff segir nú að Trump sé að monta sig af þessari frétt. Forsetinn hafi hringt í marga tengiliði til að baktala Musk eftir að þeim sinnaðist. Meðal annars hafi forsetinn nýlega verið að hringja í fólk og þar játað að bera ábyrgð á fréttinni.
„Hann var að hringja í fólk og segja: „Heldur þú að Elon sé bilaður? Ég held að hann sé galinn,“ sagði Wolff í samtali við Daily Beast-hlaðvarpið. „Og hann var að tala um, þið vitið, hversu mörg vímuefni Musk væri að taka og segja að hann væri sífellt að neyta vímuefna.“
Síðan hafi Trump sagt: „Við vörpuðum sprengjunni um fíkniefnaneyslu Musk til The New York Times.“
Samskiptafulltrúi stjórnarráðsins, Steven Cheung, hefur þó vísað fullyrðingum Wolff alfarið á bug.
„Michael Wolff er lygasjúkur skíthæll og þekktur svikari. Hann hefur ítrekað skáldað sögur upp úr sínu sjúka og afbrigðilega ímyndunarafli, líklega bar því hann glímir við alvarlegt og lamandi tilfelli af Trump-sturlun sem hefur valdið rotnun í heila hans sem er á stærð við jarðhnetu.“