Stuðningsmenn Donald Trump hafa margir viðurkennt með semingi að mótframbjóðandi hans, Kamala Harris, hafi staðið sig betur í kappræðum forsetaframbjóðendanna á þriðjudaginn. Margir þessara stuðningsmenna vilja þó halda því fram að Harris hafi aðeins staðið sig betur þar sem brögð voru í tafli.
Vinsælasta samsæriskenningin sem gengur um netheima um kappræðurnar er að Kamala Harris hafi verið með heyrnatól þar sem hún var mötuð á því sem hún ætti að segja. Til að rökstyðja samsærið er bent á eyrnalokka varaforsetans, en á Kickstarter má finna sérstaka hljóð-eyrnalokka sem mörgum þykir svipa til eyrnalokkanna sam Harris klæddist í kappræðunum.Eyrnalokkarnir nefnast NOVA H1 og seinasta uppfærslan frá verkefninu var árið 2023 og virðist ekki hafa verið stofnuð sérstök vefsíða til að selja þá svo ætla má að verkefnið hafi ekki komist á það flug sem því var ætlað. Eins virðast sumir þeirra sem styrktu NOVA H1 verkefnið aldrei hafa fengið vöruna afhenta og hafa skilið eftir athugasemdir þar sem aðstandendur eyrnalokkanna eru kallaðir svikarar.
Hins vegar þykir mun líklegra að Harris hafi verið með ósköp venjulega eyrnalokka sem hún líklega keypti frá vinsæla skartgripabúðinni Tiffany, en Harris hefur notað þessa sömu eyrnalokka við mörg tilefni.
Önnur samsæriskenning gengur líka en þar segir að Kamala Harris hefi fengið spurningarnar sendar fyrirfram og því getað undirbúið sig betur en Trump. Þessi kenning þykir sérstalega vanhugsuð þar sem forsetaframbjóðendur fá yfirleitt engar óvæntar spurningar í svona kappræðum. Þeir eru spurðir um stefnumál sín og svo um umdeild mál þeim tengd. Væntanlega fátt þar sem kemur á óvart. Svo virðist sem þessa kenningu megi rekja til aðgangsins @VoteHarrisOut á X (áður Twitter). Þar sagðist viðkomandi eiga sannanir fyrir því að Kamala hefði fengið spurningarnar fyrir kappræðurnar og henni lofað að stjórnendur myndu ekki sannreyna nokkuð sem hún segði, en hins vegar sannreyna allt sem kæmi frá Trump. Viðkomandi lofaði því að innan fárra daga yrðu þessar sannanir birtar eftir að búið væri að afmá persónugreinanlegar upplýsingar uppljóstrara. Gagnrýnendur þessarar samsæriskenningar hafa eins bent á að varla taki það langan tíma að afmá upplýsingar úr eiðsvarinni yfirlýsingu.
🚨BREAKING: Whistle blower confirms that Kamala Harris was given the questions before the ABC debate.
— Philip Anderson (@VoteHarrisOut) September 12, 2024
Það sem helst vekur athygli við gagnrýni stuðningsmanna Trump er hversu sárir þeir eru yfir því að stjórnendur kappræðna hafi vakið athygli á því þegar forsetaframbjóðandinn fór með rangfærslur. Þeir þræta ekki fyrir að um rangfærslur sé að ræða en finnst þó að það hafi ekki verið hlutverk stjórnenda að vekja athygli á því.
Eins hafa kenningar gengið um að Harris og stjórnendur kappræðnanna hafi verið saman í ráðum því að Harris og annar stjórnandinn voru í sama systralaginu í háskóla. Þessar sögur ganga þó að það sé 15 ára aldursmunur á konunum og þó svo að sama systralagið sé rekið í fjölda háskóla víða um heiminn. Jafnvel er gengið svo langt að saka stjórnendur kappræðnanna um að taka þátt í stríðinu gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum sem sé í eðli sínu aðför að tjáningarfrelsinu.