Árásarmaðurinn, sem er 33 ára og frá Alsír, var með skammbyssu og palestínskan fána bundinn um mittið. Hann reyndi að kveikja í bænahúsinu áður en laugardagsguðþjónusta átti að hefjast. Að sögn franskra fjölmiðla kveikti hann fyrst í tveimur bílum fyrir framan bænahúsið. Því næst skrúfaði hann frá gaskút, sem var tengdur við grill á staðnum, og sprakk hann.
Fimm manns, þar á meðal rabbíninn, voru inni í bænahúsinu en lögreglan kom fljótt á vettvang og náði að slökkva eldinn. Einn lögreglumaður meiddist lítillega.
Árásarmanninum tókst að flýja en var handtekinn 15 klukkustundum síðar í Nimes.
En rannsókn málsins og yfirheyrslur yfir manninum hafa leitt í ljós að þetta hefði getað farið miklu verr. Ef hann hefði látið til skara skríða aðeins seinna um morguninn hefði bænahúsið væntanlega verið fullt af fólki. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að maðurinn var með öxi meðferðis og hafði í hyggju að ráðast á fólk sem reyndi að flýja eldhafið.
Hryðjuverkalögreglan fer með rannsókn málsins og er það til merkis um hversu alvarlegt það er.