Sky News segir að vísindamenn við Kaliforníuháskóla segi að gögnin bendi til að mikið sé af fljótandi vatni undir yfirborði Mars. Þetta byggja þeir á gögnum frá InSight sem lauk störfum 2022.
En sá hængur er á þessu að sögn vísindamannanna að það verður ekki einfalt að finna vatnið. Þeir telja að það sé undir steinum sem mynda miðskorpu plánetunnar og sé það á 11,5 til 20 km dýpi.
Vashan Wright, einn höfunda rannsóknarinnar og prófessor, sagði að gögnin veiti stórar vísbendingar um þróun Mars. „Að öðlast skilning á hringrás vatns á Mars skiptir sköpum við að skilja þróun loftslagsins, yfirborðsins og annars,“ sagði hann.
Vísindamennirnir byggja niðurstöðurnar meðal annars á upplýsingum frá InSight um hraða jarðskjálftabylgna. Þeir noruðu síðan reiknilíkan til að ákvarða tilvist fljótandi vatns undir yfirborðinu.
Vísindamenn hafa lengi reynt að finna vatn á Mars en kenningar hafa verið settar fram um að það hafi einfaldlega endað úti í geimnum. En niðurstöður nýju rannsóknarinnar benda til að svo hafi ekki verið.