Libby Denney er 29 ára ensk kona sem starfar við þrif sem aðrir vilja ekki takast á við. Hún hefur sérhæft sig í þrifum á fasteignum sem eru mjög óhreinar og í slæmu standi.
Mörgum myndu eflaust fallast hendur ef þeir ættu að takast á við það sem hún tekst á við en hún lætur engan bilbug á sér finna að sögn Mirror.
Hún hefur rekið fyrirtækið Clean Up Company í 10 ár og hefur tekist á við fjölda krefjandi þrifaverkefna á þeim tíma.
Hún segist hafa þrifið um 2.000 hús og hafi séð næstum allt sem hægt sé að ímynda sér. Allt frá stöflum af rusli og notuðum fullorðinsbleium til húsa sem eru undirlögð af möðkum og dauðum skordýrum.
Hún segir að í hennar huga snúist þetta ekki bara um að gera hreint, heldur einnig að aðstoða fólk við að koma heimilum sínum og lífi aftur á rétta braut.
En auk þess að geta hjálpað fólki þá gefur þetta vel af sér því hún getur haft sem svarar allt að 1,2 milljónum íslenskra króna í laun á viku.