fbpx
Þriðjudagur 18.júní 2024
Pressan

Tilkynning veðurathugunarkonunnar kom í veg fyrir miklar hörmungar

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 6. júní 2024 07:00

Blacksod vitinn. Mynd:Keith Ewing/Flickr

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Vinsamlegast kannaðu málið, endurtaktu vinsamlegast.“ Þetta sagði kona, með mikinn enskan hreim, í símann þegar Maureen Sweeney svaraði. Skömmu áður hafði Maureen, sem var unnusta írsks póstmeistara, skilað af sér veðurathugunarskýrslu eins og hún gerði á klukkustundarfresti.

Í skýrslunni sagði hún að strekkingsvindur væri og loftvogin félli hratt. Þetta var afmælisdagurinn hennar (3. júní 1944), hún varð 21 árs, og verðandi eiginmaður hennar, Ted, og hún höfðu í nógu að snúast. Hann var póstmeistarinn á staðnum en auk þess voru þau vitaverðir í Blacksod vitanum á Írlandi. Vitinn lætur ekki mikið yfir sér en þennan dag eignaðist hann sinn stað í sögunni.

Vincent sonur hennar rifjaði þetta upp í samtali við Sky News og sagði: „Mamma sagði: „Guð minn góður, las ég vitlaust af?“ Þetta var ekki vitlaus álestur, en þetta olli áhyggjum hjá þeim sem voru að skipuleggja landgönguna á D-deginum.“

Um 5.000 skip og 11.000 flugvélar voru tilbúnar til að flytja 156.000 hermenn frá Bretlandi til Normandí í Frakklandi.

En það var eitt sem bresku, bandarísku og kanadísku herforingjarnir höfðu ekkert vald yfir, veðrinu þann 5. júní en það var dagurinn sem ákveðið hafði verið að innrásin skyldi hefjast.

Á vesturbrún Evrópu

Blacksod vitinn er staðsettur á vesturbrún Evrópu, við hlið fallegs sjávarþorps, fallegra stranda og nærri Achill eyju. Frá vitanum er útsýni yfir hið gríðarstóra Atlantshaf. Flestar þær lægðir sem skella á meginlandi Evrópu fara yfir Blacksod vitann.

Þrátt fyrir að Írland væri hlutlaust í síðari heimsstyrjöldinni, þá sáu Írar nágrönnum sínum á Bretlandi fyrir veðurspám en það var gert samkvæmt samningi sem var gerður þegar Írland fékk sjálfstæði frá Bretlandi.

Maureen grunaði ekki að örlög tugþúsunda hermanna Bandamanna byggðust á veðurathugunum hennar.

Veðurathugun hennar þann 3. júní benti til að lægð væri yfir hálfu Írlandi  og færðist hratt í suðaustur, í átt að Normandí í Frakklandi.

Ef haldið hefði verið fast í áætlunina um innrásina þá hefðu hersveitir Bandamanna staðið frammi fyrir miklum hörmungum, þurft að stýra bátum í gegnum ólgusjó og skríða upp á strendurnar í úrhellisrigningu.

Veðurathugun Maureen, sem Ted fór yfir og fór aftur yfir, sannfærði yfirmenn herafla Bandamanna um að fresta innrásinni um einn dag.

Ted og Maureen Sweeney

 

 

 

 

 

 

Snemma að morgni 5. júní, á morgunfundi Eisenhower, sem var æðsti yfirmaður herafla Bandamanna, var önnur veðurathugun frá Blacksod rædd en hún staðfesti að lægðin var farin framhjá. Lágvært fagnaðaróp var rekið upp, veðurskýrslan sem beðið var eftir var komin og Eisenhower gaf fyrirskipun um að „Operation Overlord“ skyldi haldið áfram. „Operation Overlord“ var heitið á aðgerðinni sjálfri, innrásinni á meginland Evrópu.

Maureen lést á síðasta ári, 100 ára að aldri. Skömmu áður rifjaði hún upp þessa þrjá daga í júní 1944: „Eisenhower var að gera upp hug sinn . . . en þegar hann sá veðurathugunina frá Blacksod, þá var staðfest að hann hafði rétt fyrir sér og hann lét vaða.“

Vissu ekki um mikilvægið

Það var ekki fyrr en rúmum áratug eftir D-dag, þegar búið var að breyta framkvæmd veðurathugana, að Maureen og Ted komust að því hversu stórt hlutverk veðurathuganir þeirra léku varðandi D-dag.

Vincent, sonur þeirra, sagði í samtali við Sky News að foreldra hans hafi grunað að eitthvað væri í bígerð því þau hafi sent veðurathuganir frá sér á klukkustundar fresti og hafi síðan verið beðin um að endurtaka upplesturinn.

Árið 1956 var veðurathugunarstöðin flutt frá Blacksod og þá kom opinber embættismaður þangað til að aðstoða við flutninginn. „Hann sagði: „Hvernig er það Ted og Maureen, vitið þið hversu miklu máli veðurathuganir ykkar 3., 4. og 5. júní 1944 skiptu? Ég get sagt ykkur að þessar veðurathuganir voru afgerandi þáttur varðandi framhald „Operation Overlord“.“

Ef Maureen hefði ekki lesið veðrið rétt er talið næsta víst að D-dagur hefði endað með hörmungum fyrir Bandamenn.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings heiðraði Maureen og sæmdi hana heiðursorðu fyrir störf hennar við veðurathuganir í aðdraganda D-dags.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Telja sig hafa fundið hina fullkomnu lækningu við þynnku

Telja sig hafa fundið hina fullkomnu lækningu við þynnku
Pressan
Fyrir 3 dögum

Linda fór að sinna fyrirsætuverkefni – Hún kom aldrei aftur heim

Linda fór að sinna fyrirsætuverkefni – Hún kom aldrei aftur heim
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Þetta eru ólýsanlegir glæpir“

„Þetta eru ólýsanlegir glæpir“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Nú verður fólki refsað fyrir nekt og undarlegan klæðaburð – Sektarupphæðirnar segja sitt um umfang vandans

Nú verður fólki refsað fyrir nekt og undarlegan klæðaburð – Sektarupphæðirnar segja sitt um umfang vandans