Myndin var upphaflega birt á Instagramaðgangi Katrínar og Vilhjálms eiginmanns hennar og vakti að vonum mikla athygli því miklar vangaveltur hafa verið uppi að undanförnu um heilsufar prinsessunnar. Breska hirðin hefur ekki viljað tjá sig um heilsufar hennar á síðustu vikum og það hefur heldur betur ýtt undir sögusagnir um heilsufar hennar.
Helstu ljósmyndaveitur heims, þar á meðal Getty, Reuters, AP og AFP, dreifðu nýju myndinni en sendu síðan skilaboð til fréttamiðla um að hætta að nota hana vegna þess að líklega hafi verið „átt við hana“.
Sky News hefur eftir AP að á myndinni sé „ósamræmi varðandi staðsetningu vinstri handar Charlotte prinsessu“. Myndin hér fyrir neðan sýnir þetta ósamræmi.
Sky News bendir á að það sé ekki óvenjulegt að ljósmyndum sé breytt og að í þessu tilfelli hafi ekkert komið fram sem bendi til að hirðin hafi verið að gera neitt annað en að bæta gæði ljósmyndarinnar ef henni var þá á annað borð breytt.