Áður hafði svínshjarta verið grætt í heiladautt fólk í Bandaríkjunum en aðeins einu sinni áður í manneskju sem ekki var heiladauð.
Ígræðslan var framkvæmd á háskólasjúkrahúsinu Maryland háskólans í Baltimore. Það var einmitt þar sem fyrsta aðgerðin af þessu tagi var gerð.
Á síðasta ári lést David Bennett, 57 ára, eftir að svínshjarta var grætt í hann. Að sögn talsmanna sjúkrahússins voru það nokkrir þættir sem gerðu að verkum að hann lést. Meðal annars slæmt heilsufar hans áður en ígræðslan fór fram.
Lawrence Faucette átti ekki rétt á að fá mannshjarta grætt í sig því biðlistinn eftir mannshjarta er svo langur og læknar mátu það sem svo að það væru mjög litlar líkur á að nýtt hjarta myndi virka í Faucette. Án nýs hjarta, blasti fátt annað við honum en dauðinn.
„Eina von mín er að fá svínshjarta. Nú hef ég að minnsta kosti von og ég á möguleika,“ sagði Faucette áður en hann var svæfður fyrir aðgerðina.
Skortur á líffærum er mikið vandamál í Bandaríkjunum en rúmlega 100.000 manns eru á biðlista eftir líffæraígræðslu.
TV2 segir að sérfræðingar segi að ígræðsla líffæra úr dýrum geti verið hluti af lausninni á þessum vanda en þetta er erfitt í framkvæmd því yfirleitt hafnar mannslíkaminn ígræddum líffærum og reynir í sumum tilfellum að skemma þau.
Vísindamenn reyna nú að komast fram hjá þessu vandamáli með því að nota erfðabreytt svín og lyf sem eiga að koma í veg fyrir að líkaminn hafni og skemmi ígrætt hjarta. Aðferðin hefur verið prófuð á heiladauðum sjúklingum í New York síðustu ár. Fyrr í mánuðinum var met sett þegar heiladauður sjúklingur lifði í 61 dag með erfðabreytt svínshjarta.