Saksóknarar í Colleton-sýslu í Bandaríkjunum standa nú í ströngu, en þeir eru að verjast kröfu frá lögmanni Alex Murdaugh um að mál hans verði tekið upp að nýju.
Alex er fyrrum lögmaður sem sakfelldur fyrir að hafa árið 2021 banað eiginkonu sinni og syni. Málsatvik eru um margt stórfurðulegt og er forvitnum bent á heimildarþætti sem Netflix gerði um málefni fjölskyldunnar. Alex hélt fram sakleysi sínu en var engu að síður sakfelldur fyrir bæði morðin og gert að sæta fangelsi til lífstíðar.
Nú gæti þó farið svo að málið verði lagt í dóm að nýju, en verjendur Alex telja að átt hafi verið við kviðdóminn. Hafi starfsmaður dómstólsins haft afskipti að störfum kviðdóms, þá einkum að einum meðlimi sem ólíkt hinum taldi Alex saklausan.
Málið má rekja til færslu á Facebook, þar sem maður sakaði fyrrum eiginkonu sína um að hafa undir áhrifum áfengis tjáð sig um málið. Þessi kona hafi setið í kviðdómi. Starfsmaður dómsins, Becky Hill sagði dómara að hún hafi séð þessa færslu fyrrum eiginmannsins og varð það til þess að konunni sem sat í kviðdómi, var vísað frá málinu. Umrædd kona sem nýtur nafnleyndar hefur í fjölmiðlum verið kölluð „eggjahausa konan í kviðdóminum,“ eftir að dómari spurði hana hvort hún hefði skilið eitthvað eftir í herbergi kviðdóms og hún svaraði – Um það bil tólf egg.
Becky hins vegar sýndi aldrei téða færslu og hafði ekki tekið afrit af henni. Verjendur Alex segja að Becky hafi hreinlega skáldað þetta upp til að vekja athygli á sér og til að upplifa sig mikilvægari í starfi heldur en hún í raun og veru er.
Hefði eggjahausa konan fengið að vera áfram í kviðdómi er mögulegt að kviðdómur hefði klofnað og því ekki komist að einróma niðurstöðu.
Verjendur Alex segja að Becky þessi hafi því gert málinu mikinn óleik með afskiptum sínum. Hún hafi stöðugt reynt að trana sér fram og vingast við kviðdóminn, og jafnvel beitt meðlimi þrýstingi og mögulega logið að auki að dómara. Becky skrifaði svo líka bók sem fjallaði um að upplifun hennar af málinu og þar virtist hún telja sjálfa sig með þegar hún fjallaði um kviðdóminn og hvernig hann komst að niðurstöðu. Hún hefur svo komið opinberlega fram með meðlimum kviðdóms og boðið þeim heim til sín í veislur og hvaðeina.
Verjendur Alex segja að Becky hafi í raun fórnað starfsheiðri sínum og skyldum sínum til hlutleysis til að græða frægð og peninga af málinu. Hún hafi haft beinan ásetning til að losa sig við meðlim kviðdóms sem gæti komið í veg fyrir sakfellingu og svifist einskis.