CNN segir að borgarstjórnin ræði nú hvort innheimta eigi 5 evrur af hverjum þeim ferðamanni sem vill heimsækja borgina á mestu álagstímanum. Þetta gildir fyrir þá sem gista ekki í borginni.
Umræðurnar hófust eftir að UNESCO setti Feneyjar á lista yfir heimsminjar sem eru í hættu.
Luigi Brugnaro, borgarstjóri, sagði að rétt sé að hafa í huga að þótt borgarstjórn samþykki þessar breytingar þá séu þær ekki endilega komnar til að vera. Hér sé um tilraun að ræða og nái hún yfir 30 daga sem verður dreift yfir árið. Þetta eru þeir dagar sem ferðamannfjöldinn er í hámarki, til dæmis sumarfrístíminn.
Hann sagði að með þessu sé vonast til að hægt verði að draga úr komum þeirra sem heimsækja borgina aðeins í einn dag. „Það er nauðsynlegt að hafa stjórn á ferðamannastraumnum en það þýðir ekki að við lokum borginni,“ sagði Brugnaro.